Vilja upplýsingar um innfluttar lopapeysur

Lopapeysur eru vinsæll klæðnaður
Lopapeysur eru vinsæll klæðnaður mbl.is/Ásdís

Verkalýðsfélagið Framsýn íhugar að óska eftir upplýsingum frá  þeim sem valið hafa að láta framleiða íslenskar lopapeysur í Kína til sölu á Íslandi.

Óskað verður eftir upplýsingum um kjör og aðbúnað fólksins í Kína sem framleiðir lopapeysurnar  fyrir markaðinn á Íslandi. Fram að þessu hafa Kínverjar ekki verið þekktir fyrir góð launakjör eða aðbúnað verkafólks, sé tekið mið af því sem gerist á Íslandi og víðast hvar í Evrópu.

Framsýn tekur heilshugar undir yfirlýsingu frá Handverkskonum milli heiða sem er þingeyskur félagsskapur 100 kvenna sem síðustu 20 ár hafa selt heimatilbúnar afurðir á Fosshóli við Goðafoss, samkvæmt frétt á vef Framsýnar.

„Á síðustu árum hefur færst í vöxt  að íslenskir  minjagripir séu framleiddir erlendis. Ýmiskonar dót skartar íslenska þjóðfánanum  eða  myndum af okkar helstu náttúruperlum, vandlega merkt  Kína eða Taívan.

Við því er víst lítið að segja,  en leiðinlegt samt að þetta skuli vera það sem helsta sem  íslendingum dettur í hug að bjóða erlendum gestum okkar.  En nú tekur steininn úr þegar íslenska lopapeysan er dregin niður í gróðasvaðið og subbuð út með þessum hætti .

Drottningin okkar lopapeysan er flutt inn til Íslands. Er ekki fokið í flest skjól þegar fjársterkir aðilar eru farnir að flytja út íslenska lopann alla leið til Kína þar sem að prjónaðar eru úr honum peysur, þær síðan sendar aftur til Íslands og seldar erlendum ferðamönnum sem  íslenskar lopapeysur. Það skal tekið fram að við erum ekki að beina spjótum okkar að kínverskum prjónakonum, enda þær sennilega ekki öfundsverðar af launum sínum. En hér á landi er fólk sem vildi gjarnan  hafa atvinnu af því að prjóna fyrir þessi fyrirtæki en þá sennilega á heldur hærri töxtum. Íslenska lopapeysan hefur lengi verið burðarásinn í sölu okkar smærri aðilanna, það hefur orðið vakning í prjónaskap og margir haft töluverðar tekjur af því þjóðlega  handverki, að prjóna .

Ef við eigum að standa í samkeppni við kínverskar prjónakonur er nokkuð ljóst hvernig rekstur okkar fyrirtækja fer. Og hvað eigum við að leggjast lágt? Erum við  Íslendingar stoltir að því að allar þær þúsundir ferðamanna sem sækja okkur heim yfirgefi landið með íslenska minjagripa í farteskinu  sem flestir eru  framleiddir erlendis.  Við spyrjum: hvar varð um þjóðarstoltið?  Er okkur alveg sama hvað bjóðum gestum okkar, svo lengi sem að við fáum greitt fyrir? Við hjá Goðafossmarkaði  vitum að við getum ekkert við þessu gert, þetta er víst allt saman löglegt,en að okkar mati siðlaust. Víða um land eru rekin lítil handverksgallerí , við teljum að fólk sem rekur þau séu sama sinnis og köllum eftir viðbrögðum þeirra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert