Álfheiður og Ólína ósáttar við fulltrúa Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu

Hvalir á Skjálfanda.
Hvalir á Skjálfanda. mbl.is/Hafþór

Í gær greiddu fulltrúar Íslands, ásamt Japönum, Norðmönnum og fleiri þjóðum atkvæði gegn tillögu um griðasvæði fyrir hvali í Suður-Atlantshafi á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði: „Ég er ósátt við þessa niðurstöðu og hef ekki fengið á þessu neinar skýringar.“

Álfheiður telur málið mikilvægt og varði orðspor Íslands á alþjóðavísu. „Ég lít svo á að það þurfi að ræða þessa ákvörðun fulltrúa Íslands sérstaklega í þinginu, væntanlega á vettvangi utanríkismálanefndar. Spurningin er hvort haft hafi verið samráð við utanríkismálanefnd um þessa afstöðu Íslendinga.“

Álfheiður Ingadóttir gagnrýndi ásamt Árna Þór Sigurðssyni, Merði Árnasyni, Þuríði Backman og Ólínu Þorvarðardóttur íslensku sendinefndina í ágúst 2011 og Jón Bjarnason þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra harðlega fyrir að nefndin hafi gengið út af fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins svo fundurinn væri ekki ályktunarhæfur. Var þá einnig verið að greiða atkvæði um tillögu um stofnun griðasvæðis í Suður-Atlantshafi.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi engum atvinnuhagsmunum Íslendinga ógnað þó tillagan yrði samþykkt og myndað yrði afmarkað griðasvæði hvala. „Mér finnst þetta mjög sorglegt að fulltrúar Íslands skuli taka þennan pól í hæðina. Þetta er hófsöm tillaga sem leggur áherslu á tillitsemi í umgengni við náttúruna. Það er virkilega sorglegt að fulltrúar Íslands geti ekki tekið undir svona tillögu.“

Alls greiddu 38 lönd atkvæði með tillögunni en 21 land var á móti. Tillagan hefðu þurft 75% eða 3/4 hluta atkvæða til þess að fara í gegn en hlaut einungis 65% og var því hafnað. Japanir voru í forystu andstæðinga griðasvæðisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert