„Maria Damanaki [sjávarútvegsstjóri ESB] er einfaldlega að segja að það séu bein tengsl á milli ESB-viðræðnanna og makríldeilunnar. Þetta gengur þvert á það sem íslensk stjórnvöld hafa haldið fram,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um ummæli sem Damanaki lét falla í dag.
Á bloggsíðu sinni spyr Einar hvað hún eigi við þegar hún segi að skiptar skoðanir séu innan ráðherraráðsins um hvort opna skuli sjávarútvegskaflann í viðræðum um aðild Íslands að ESB.
„Af ummælum hennar á blaðamannafundi hér á landi í dag má glögglega skilja að ástæðan sé sú að ekki er búið að útkljá makríldeiluna,“ skrifar Einar og bætir við að ummælin séu mjög athyglisverð.
„Og hvað segja þau okkur? Maria Damanaki er einfaldlega að segja að það séu bein tengsl á milli ESB-viðræðnanna og makríldeilunnar. Þetta gengur þvert á það sem íslensk stjórnvöld hafa haldið fram. Þau hafa sagt að þar séu engin tengsl. Nú upplýsir sú er gerst má vita, að tengsl makríldeilunnar og ESB-umsóknarinnar séu ekki einasta bein, heldur órjúfanleg,“ skrifar Einar.
Þá segir hann að eftir þetta sé engin ástæða til þess að karpa um málið. Æðsti yfirmaður sjávarútvegsmála innan ESB hafi talað. Þá segir hann að „undanbrögð íslenskra ráðamanna úr ESB-flokkunum (VG og Samfylkingu) munu ekki lengur duga til þess að afvegaleiða umræðuna.“