Endurgreiðsla hækkuð umtalsvert

Karíus og Baktus
Karíus og Baktus mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Guðbjart­ur Hann­es­son vel­ferðarráðherra hef­ur falið Sjúkra­trygg­ing­um Íslands að hækka gjald­skrá vegna al­mennra tann­lækn­inga barna yngri en 18 ára tíma­bundið um 50%. Gjald­skrár­breyt­ing­in gild­ir frá 1. júlí til næstu ára­móta.

Áætlað er að með þessu hækki hlut­fall end­ur­greiðslu raun­kostnaðar úr tæp­um 42% í að meðaltali í 62,5% og hef­ur það ekki verið hærra í tæp­an ára­tug. Ákvörðun vel­ferðarráðherra er í sam­ræmi við til­lögu starfs­hóps sem hann skipaði um miðjan maí síðastliðinn, sam­kvæmt til­kynn­ingu frá ráðuneyt­inu

Síðastliðinn ára­tug hef­ur á hverju ári orðið af­gang­ur af þeim fjár­mun­um sem Alþingi hef­ur ákveðið að verja til tann­lækn­inga sjúkra­tryggðra hér á landi. Megin­á­stæðan er sú að eng­inn samn­ing­ur hef­ur verið í gildi milli rík­is­ins og tann­lækna um margra ára skeið og hlut­fall end­ur­greiðslu raun­kostnaðar vegna tann­lækn­inga barna hef­ur lækkað veru­lega.

Í fyrra var sá af­gang­ur sem varð af fjár­lagalið tann­lækn­inga nýtt­ur í sér­stakt átaks­verk­efni þar sem börn­um tekju­lágra for­eldra var boðin tann­lækn­isþjón­usta án end­ur­gjalds og nýttu tæp­lega 800 börn þessa þjón­ustu.

Von­ast til þess að fleiri börn fari til tann­lækn­is

Áætlað hef­ur verið að af­gang­ur af fjár­lagalið tann­lækn­inga á þessu ári myndi að óbreyttu nema um 174 millj­ón­um króna. Með gjald­skrár­hækk­un­inni frá 1. júlí til 31. des­em­ber 2012 munu þess­ir fjár­mun­ir nýt­ast að fullu. Meg­in­mark­miðið er að fleiri börn leiti til tann­lækn­is en ella og er áætlað að þeim fjölgi um að minnsta kosti 10% með þess­ari breyt­ingu.

Í starfs­hópi vel­ferðarráðherra sem lagði til þessa breyt­ingu um tíma­bundna hækk­un gjald­skrár Sjúkra­trygg­inga Íslands sátu full­trú­ar vel­ferðarráðuneyt­is­ins, Sjúkra­trygg­inga Íslands, Tann­lækna­fé­lags Íslands, Há­skóla Íslands, Embætt­is land­lækn­is og heilsu­gæsl­unn­ar og var hóp­ur­inn ein­huga um til­lög­una. Vel­ferðarráðherra hef­ur veitt starfs­hópn­um umboð til að vinna að til­lög­um um framtíðarfyr­ir­komu­lag tann­lækn­inga barna. Stefnt er að því að ná samn­ing­um við tann­lækna og að nýtt fyr­ir­komu­lag taki gildi í áföng­um með bættri þjón­ustu við börn og barna­fjöl­skyld­ur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert