Mörgum þykir það fagnaðarefni þegar íslenskar kartöflur koma í búðir, þeir geta því glaðst yfir því að fyrstu íslensku kartöflurnar eru að koma í búðir.
„Fyrstu verða komnar um hádegið á morgun, þetta hefur gengið vel, bæði verið þokkalegur raki og sólríkt,“ segir Birkir Ármannsson á Brekku í Þykkvabænum. Þau rækta mest af Gullauga og segir Birkir að margir spyrjist fyrir um kartöflurnar og að fólk bíði spennt eftir því að fá þær í búðir. Það er tegundin Premiere sem kemur þó fyrst á markað en Gullauga og Rauðar íslenskar koma eftir hálfan mánuð.
„Þetta hefur gengið ágætlega, það hefði þó mátt rigna meira, en að öðru leyti gengið vel,“ segir Kristján Gestsson í Forsæti IV. Kristján og Anna Guðbergsdóttir hafa ræktað kartöflur í yfir 40 ár.
„Kartöflurnar sem koma í búðir á morgun verða teknar upp í kvöld og nótt, svo þær ættu að geta verið mjög ferskar,“ segir Kristján. Bæði Birkir og Kristján eru fyrstu bændurnir til að senda frá sér nokkuð mikið magn af nýjum íslenskum kartöflum þetta árið.