Líklega verður gengið frá samningi kínverska fjárfestisins, Huang Nubo, um leigu á Grímsstöðum á fjöllum í næsta mánuði. Bæjarstjóri Norðurþings segir samningsviðræðurnar á góðri siglingu. Talsmaður Huang segir málið í góðri vinnslu og ekki sé óraunhæft að hótelstarfsemi hefjist á Grímsstöðum 2016 eða 2017.
„Þetta gengur vel, við erum komnir á síðustu metrana í málinu og reiknum með að það skýrist í ágúst,“ segir Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings. Hann segir bæjarstjórnina hafa tvenns konar markmið við samningsgerðina. Annars vegar að byggja hótel á landsbyggðinni og hins vegar að samningurinn verði gerður í sátt við sem flesta.
Morgunblaðið hefur áður sagt frá því að skipulagsvinna og hönnun hótelsins kunni að taka um eitt og hálft ár frá undirritun samnings. Gangi allt samkvæmt áætlun má því búast við að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2014 en um er að ræða lúxushótel.
Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo, segir að unnið sé að því að klára samninga í sumar. Viðræður hafi þó gengið hægar en vonir stóðu til en málið sé í góðri vinnslu. „Það eru margar hliðar á málinu og eðlilega þarf að stíga varlega til jarðar en nú búumst við því að þetta klárist tiltölulega fljótlega,“ segir Halldór.
Halldór segir ekkert eitt atriði umfram önnur hafa hægt á samningsgerðinni. Einungis sé um að ræða ítarlegt samningsferli enda nokkrir eigendur að landinu. Eftir samningsundirritun taki við skipulagsferli sem einnig gæti tekið nokkurn tíma en ekki sé óraunhæft að hótelstarfsemi hefjist á Grímsstöðum á Fjöllum 2016 eða 2017.
Til stendur að sveitarfélögin kaupi rúmlega 72% hlut í jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum og leigi svo landið, til félags í eigu Huang Nubo, undir hótelrekstur. Aðrir eigendur jarðarinnar eru íslenska ríkið með um 25% hlut auk tveggja annarra eigenda með tæplega 2% eignarhlut.