Búið var að taka ákvörðun í 3565 umsóknum um greiðsluaðlögun sem borist höfðu umboðsmanni skuldara 1. júlí. Úrræðið var kynnt til sögunnar 1. ágúst árið 2010 og síðan þá hafa 4099 sótt um greiðsluaðlögun skulda. Af þeim málum sem tekin hafa verið til athugunar hjá umboðsmanni skuldara hefur 410 verið synjað um greiðsluaðlögun en 2941 mál hefur verið samþykkt. 314 mál hafa verið afturkölluð að frumkvæði skuldara. 434 umsóknir eru í vinnslu.
Eftir að umboðsmaður hefur samþykkt greiðsluaðlögun fer málið til umsjónarmanns sem er lögfræðingur og milligöngumaður um greiðslukjör skuldara við kröfuhafa. 1910 mál bíða niðurstöðu hjá umsjónarmönnum en af 1755 málum sem lokið hefur verið við hafa um 900 málum verið lokið með samningum.
1860 hafa sótt um fjármálaráðgjöf hjá umboðsmanni skuldara frá 1. ágúst og eru 534 mál í vinnslu hjá embættinu nú. Um þriðjungur ráðgjafamála endar í greiðsluaðlögun.
Enn koma mál inn á borð umboðsmanns en umsóknir eru mun fátíðari en áður. Fyrirfram var ljóst að umsvif embættisins myndu minnka með færri umsóknum. Hinn 1. september mun starfsmönnum fækka úr 98 í 70.