Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, skrifar grein í breska blaðið Guardian í dag þar sem hún segir að íslensk stjórnvöld hafi varað hana við því að ferðast til Bandaríkjanna. Hún segir að bandarísk stjórnvöld hafi reynt að brjótast inn í Twitter aðgang hennar.
Birgitta hefur unnið með WikiLeaks, en bandarísk yfirvöld eru að rannsaka samtökin vegna gruns um lögbrot í tengslum við uppljóstranir síðunnar.
Birgitta segir í greininni í Guardian að hún hafi gerst sér grein fyrir að líf hennar yrði aldrei það sama og áður eftir að hún ákvað að taka þátt í að birta opinberlega myndband sem sýnir bandaríska herþyrlu skjóta á óbreytta borgara í Bagdad, höfuðborg Íraks. Hún hafi tekið þátt í að opinbera sannleikann um stríðið í Írak og því hafi ekki verið tekið vel af þeim sem vildu halda þessum upplýsingum leyndum.
Bandaríska dómsmálaráðuneytið krafðist þess að örbloggssíðan Twitter afhenti ráðuneytinu öll skilaboð sem Birgitta Jónsdóttir hefur skrifað á síðuna.
Birgitta segir í greininni að hún hafi fengið munnleg skilaboð frá Luis E Arreaga, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem honum hafi verið falið að færa henni frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu um að henni væri velkomið að ferðast til Bandaríkjanna, að hún væri ekki til rannsóknar og hún ætti ekki á hættu að verða yfirheyrð ef hún færi til Bandaríkjanna. Engu að síður hafi utanríkisráðuneyti Íslands varð hana eindregið við því að fara til Bandaríkjanna. Það sama hafi lögmenn sem séu henni til aðstoðar vegna kröfu dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna gert.
Birgitta segir að þetta hafi reynst skynsamleg ráðlegging því að lögmenn sem væru að vinna í þessum málum hefðu séð tvo innsiglaða skjalabunka sem lagðir voru fyrir dómstól í Bandaríkjunum þar sem nafn hennar kemur við sögu. Hún segist ekki vita hvað sé í þessum skjölum.
Í gær kom fram í fréttum að dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna myndi halda áfram að rannsaka WikiLeaks. Ráðuneytið hefur staðfest að verið sé að rannsaka stuðningssamtök við Bradley Manning, en hann lak skjölum um stríðsreksturinn í Írak til WikiLeaks. Birgitta hefur stutt við samtökin frá upphafi. Hún segist því hljóta að líta svo á að rannsóknin kunni einnig að ná til hennar.
Birgitta segir engan vafa leika á að bandarísk stjórnvöld telji sig eiga óuppgerðar sakir við WikiLeaks. Þau séu að byggja upp mál gegn Julian Assange, stofnanda WikiLeaks. Hann hafi því fulla ástæðu til að óttast að hann verði framseldur til Bandaríkjanna. Hún endar greinina á þeim orðum að besta niðurstaðan væri sú að Svíþjóð héti því að Assange yrði ekki framseldur til Bandaríkjanna.