„Ég lenti í Rússagrýlunni“

Ásdís Olsen aðjúnt
Ásdís Olsen aðjúnt mbl.is/Brynjar Gauti

Ásdís Olsen, aðjúnkt við Háskóla Íslands, var handtekin og leidd afsíðis í Rússlandi. Atvikið átti sér stað þegar Ásdís var í vegabréfaskoðun á leiðinni heim eftir að hafa verið á ráðstefnu þar í landi en landvistarleyfi hennar hafði runnið út fyrir mistök og mun það vera ástæða handtökunnar.

Ásdís var gestur Rásar 2 í morgun og lýsti hún reynslu sinni af landamæravörðum Moskvu en Vísir greindi frá þessu í gær.

„Ég lenti í Rússagrýlunni. Í sakleysi mínu er ég að fara í gegnum vegabréfaskoðun, eins og aðrir sem voru á leiðinni heim á þessum tíma, og allt í einu er eitthvað ástand í gangi og ég er stoppuð af,“ sagði Ásdís í viðtali við Rás 2 í morgun.

Hún sagði landamæraverði því næst hafa kallað eftir frekari aðstoð en fljótlega var henni svo vísað inn í lokað herbergi þar sem hún var læst inni. Á meðan á öllu þessu stóð varð Ásdís viðskila við samferðamenn sína og missti af flugvélinni.

Ástæða þess að landamæraverðirnir leiddu hana afsíðis mun vera sú að vegabréfsáritun hennar hafði runnið út deginum áður fyrir mistök. Var henni því næst gert að hafa uppi á rússneska konsúlnum sem staðsettur er á flugvellinum.

„Þá upphófust mikil hlaup [...] en Rússarnir eru mjög erfiðir í samskiptum, þeir vilja ekkert við mann tala og segja manni ekki neitt. Maður fær engar upplýsingar, þeir horfa ekki í augun á manni og ég held eiginlega að þeir séu ekki færir um að leysa mál eða finna þessar lausnir sem að maður er að leita eftir,“ sagði Ásdís á Rás 2.

Að lokum leystist úr öllu saman og komst Ásdís í flug sama dag til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands.






mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert