Hlé gert á leitinni í nótt

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rúmlega fjögur í dag.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rúmlega fjögur í dag. mynd/Róbert Jack

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur gert hlé á leitinni að ísbirninum sem talinn er vera einhvers staðar á svæðinu við Húnaflóa. Þyrlan lenti skömmu fyrir miðnætti í kvöld og er stefnt að því að halda leitinni áfram í fyrramálið.

Þá er lögreglan búin að aflétta lokunum sem voru í gildi á Vatnsnesi fyrr í kvöld, en svæðið hefur verið fínkembt.

Fyrr í kvöld greindi lögreglan á Blönduósi frá því að ísbjörn væri á svæðinu og var fólk hvatt til að hafa varann á sér. Spor fundust í sandfjöru fyrir neðan við bæinn Geitafell á Vatnsnesi, en sporin eru um það bil 300 metra frá þeim stað sem ítalskir ferðamenn sögðust hafa séð dýrið.

Þá barst lögreglu einnig tilkynning frá konu í dag sem taldi sig einnig hafa séð ísbjörn á svæðinu.

Ferðamennirnir, hjón á fimmtugsaldri með tvö börn, tóku myndir af dýri sem þeir töldu að væri ísbjörn á sundi stutt frá bænum Geitafelli á Vatnsnesi. Sporin fundust um 300 metra frá þeim stað þar sem ferðamennirnir töldu sig hafa séð dýrið.

Lögreglan á Blönduósi biður þá sem vita hvar ferðamennina er að finna að hafa samband í síma 455-2666, en lögreglan hefur enn ekki rætt við ferðamennina, sem tóku bæði ljósmyndir og myndband. Þeir aki um á silfurlituðum jepplingi og talið sé að þeir hafi ætlað að gista einhvers staðar í Húnavatnssýslunum í nótt.

Þá er fólk jafnframt hvatt til að hafa samband ef það hefur einhverjar upplýsingar varðandi ferðir ísbjarnarins.

Leitin hefur engan árangur borið

Þyrla Gæslunnar á flugi í dag.
Þyrla Gæslunnar á flugi í dag. mynd/Róbert Jack
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert