„Mér finnst sennilegra að þetta sé ísbjörn,“ segir Snæbjörn Helgi Arnarsson, frá Geitafelli á Vatnsnesi, en ítalskir ferðamenn tóku myndir af dýri sem þau telja að sé ísbjörn á sundi stutt frá bænum. Lögregla er mætt á svæðið og er að svipast um eftir dýrinu. Þyrla Gæslunnar hefur verið kölluð út.
Það voru ítölsk hjón með tvö börn sem voru á ferðalagi sem sáu dýrið. Þau höfðu gengið niður í fjöru við Kvíaból sem er skammt frá Geitafelli. Þar komu þau auga á dýr á sundi.
„Þau tóku myndir og myndskeið af einhverju sem leit út fyrir að vera ísbjörn að synda í hafinu. Þetta leit út eins og ísbjörn, en bóndinn á næsta bæ segir hugsanlegt að þetta hafi verið útselur. Mér finnst sennilegra að þetta sé ísbjörn,“ segir Snæbjörn sem skoðað hefur myndirnar ásamt heimamönnum.
Ferðamennirnir komu við á Geitafelli eftir að þeir tóku myndirnar, en þar er rekinn veitingastaður. Þau fengu sér fiskisúpu og héldu síðan áfram ferð sinni.
Snæbjörn segir að riffill sé til á bænum og menn telji sig því geta varist ef ísbjörn gengur á land.
Að sögn lögreglu á Blönduósi er verið að svipast um á svæðinu, en menn hafi ekki komið auga á neinn ísbjörn. Hann segir að sími sem hjónin gáfu upp í samtölum við ábúendur á Geitafelli hafi ekki svarað og lögreglan sé ekki með myndirnar sem fólkið tók í fórum sínum. Menn taki þessa ábendingu alvarlega og vilji leita af sér allan grun.
Fjórir hvítabirnir hafa gengið á land á Íslandi frá árinu 2008. Tveir hvítabirnir voru felldir í júní 2008, annar á Þverárfjalli og hinn á Hrauni á Skaga. Síðan var hvítabjörn felldur í Þistilfirði, í janúar 2010. Hvítabjörn var felldur í Rekavík á Hornströndum í fyrra. Ísbirnirnir voru allir skotnir.