Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir ógeðfelldar hótanir felast í þeirri afstöðu Evrópusambandsins að stilla lausn makríldeilunnar upp sem forsendu fyrir því að hægt verði að hefja viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu Ragnheiðar í morgun þar sem hún vísar til viðtals Morgunblaðsins í dag við Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins, en Damanaki er nú stödd á Íslandi í tilefni af fundi sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkjanna.
„Ógeðfelldar hótanir ESB enn á ný...semjið um makrílinn eins og við viljum eða við opnum ekki sjávarútvegskaflann! Þetta kemur svo sem ekki á óvart, enda höfum við séð þetta áður,“ segir Ragnheiður og spyr hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda verði við þessu. „Verður gengið að kröfum ESB og drifinn í gegn makrílsamningur...glæsileg niðurstaða? Það er ástæða til að óttast það.“