Samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Capacent Gallup fengi Sjálfstæðisflokkurinn 30 þingmenn, Samfylkingin 14 þingmenn, Framsóknarflokkurinn 10 þingmenn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð 9 þingmenn, ef gengið yrði til kosninga nú, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu.
Samfylkingin mælist nú með 19% fylgi og bætir við sig einu prósentustigi frá fyrri mælingu, en Vinstri grænir bæta við sig tveimur prósentum og mælast með 12% fylgi.
Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn stærsti flokkur landsins með 38% fylgi. Framsóknarflokkurinn mælist með 13% fylgi. Samstaða mælist með tæplega 5%, Björt framtíð og Dögun með rúmlega 4% og Hægri grænir með tæplega 4%.
Ofangreind skipting þingmanna er eins, hvort sem reiknað er út frá heildarfylgi á landsvísu eða út frá hverju kjördæmi. Þeir flokkar sem fá meira en 5% fylgi ná mönnum á þing.