Umhugað um bæta sjálfbærni auðlinda hafsins

Grípa á til raunhæfra ráðstafana til þess að uppræta brottkast
Grípa á til raunhæfra ráðstafana til þess að uppræta brottkast mbl.is/RAX

Sjávarútvegsráðherrum Norður-Atlantshafsríkjanna er umhugað um bæta sjálfbærni auðlinda hafsins með því að grípa til raunhæfra ráðstafana til þess að uppræta brottkast og takast á við áskoranir markaðarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnvöldum.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var gestgjafi á 17. ráðstefnu sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkja, sem haldin var í Reykjavík dagana 2. - 4. júlí 2012. Sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins, sjávarútvegsráðherrar og háttsettir fulltrúar frá Kanada, Færeyjum, Grænlandi, Íslandi, Noregi og Rússlandi tóku þátt í ráðstefnunni.

Fram kemur að Steingrímur hafi vakið athygli á því að samanlagður sjávarafli þátttökuríkja ráðstefnunnar næmi um 20% af öllum sjávarafla heims.

„Í heimi þar sem skortur er á próteini er óásættanlegt að verðmætar fæðuauðlindir fari til spillis. Hjá matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) hefur verið áætlað að brottkast afla í heiminum gæti numið rúmlega 7 milljónum tonna á ári. Þessu skaðvænlega brottkasti verður að linna í nánustu framtíð. Heilbrigt lífríki hafsins, sjálfbærar fiskveiðar og sjálfbært fiskeldi í þágu fæðuöryggis og næringar skipta sköpum fyrir lífsviðurværi milljóna manna.

Skipst var á upplýsingum um fyrri reynslu og aðferðir til þess að takast á við brottkasts á líðandi stundu og til framtíðar. Samstaða var um að meginmarkmiðið væri að uppræta brottkast. Til þess að ná því markmiði þurfa allir hagsmunaaðilar að koma að málum á öllum stigum og koma þarf á kerfi sem hvetur sjómenn til þess að landa og gera grein fyrir öllum afla. Í sveigjanlegu kerfi mætti einnig gera ráð fyrir að lifandi fiski yrði sleppt.

Umbætur á veiðarfærum og bætt skipatækni gæti bæði dregið úr brottkasti og auðveldað nýtingu meðafla og aukaafurða. Hins vegar er einnig þörf á lausnum sem snúa sérstaklega að fiskveiðum, þar sem mið væri tekið af  leiðbeiningum matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) um meðferð meðafla og minnkun brottkasts,“ segir í tilkynningu.

„Í auknum mæli fara neytendur sjávarafurða og stjórnvöld fram á sönnun þess að afurðir eigi sér löglegan og sjálfbæran uppruna. Neytendum er ljóst að þótt sjávarafurðir séu góð og heilnæm vara eru þær ekki ótæmandi auðlind. Smásölum er þetta jafnljóst. Sönnun um sjálfbærni er í mörgum tilvikum að verða að skilyrði fyrir markaðsaðgangi en viðurkennt var að kröfur um rekjanleika mættu ekki hindra viðskipti að þarflausu.

Kerfi umhverfismerkinga, sem þegar eru viðurkennd sem markaðssetningartæki, gera framleiðendum og neytendum kleift að taka ábyrgar ákvarðanir þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni. Slík kerfi ættu að minnsta kosti að samrýmast lágmarksefniskröfum leiðbeininga FAO um umhverfismerkingar afurða fiskveiða (FAO Guidelines for the ecolabelling of fish and fishery products from marine capture fisheries),“ segir ennfremur.

Viðurkennt var á þriðju ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem haldin var í Rio de Janeiro í Brasilíu dagana 20. - 22. júní 2012, að sjálfbær stjórnun auðlinda hafsins gæti stuðlað að fæðuöryggi í heiminum. Heildarniðurstöðu RIO + 20 var fagnað.

Næsta ráðstefna sjávarútvegsráðherra Norður-Atlantshafsríkjanna verður haldin í Noregi árið 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert