„Rót vantraustsins á stjórnmálum í dag er skortur á endurnýjun flokkakerfisins,“ segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, á Facebook-síðu sinni í dag. Markmisst sé hins vegar stuðlað að því að ný framboð eigi erfitt uppdráttar meðal annars með kröfum um lágmarksfylgi til þess að fá fulltrúa kjörna á þing og ríkisframlögum til þeirra stjórnmálaflokka sem náð hafa fólki inn á Alþingi.
„Fjórflokkurinn hefur markvisst komið í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun með lögum sem fela í sér að stjórnmálaflokkar þurfi að ná 5% fylgi í Alþingiskosningum til að fá fulltrúa inn á þing. Hár þröskuldur í Evrópsku samhengi. Ríkisframlög renna aðeins til flokka með fulltrúa á Alþingi. Upphæðin sem rennur árlega til einstakra flokka fjórflokksins er á bilinu 50-100 milljónir á ári. Ný framboð fá ekki ríkisframlag til að fjármagna kosningabaráttu sína,“ segir Lilja.
Þá segir hún aðgengi nýrra framboða að fjölmiðlum vera mjög takmarkað „þar sem þau eru ekki álitin hluti af flokkakerfinu fyrr en boðað hefur verið til kosninga.“ Þá fullyrðir hún að þingmenn sem standa utan flokka séu sniðgengnir af fjölmiðlum og þannig séu fjölmiðlar „mikilvægt tannhjól í vél fjórflokksins og valdastéttarinnar.“ Niðurstöðu þessa segir hún þá að ekki sé „hægt að treysta á að niðurstaða Alþingiskosninga verði lýðræðisleg!“