Þyrla Landhelgisgæslu Íslands, TF-LIF, hóf að nýju leit að hvítabirni við Húnaflóa klukkan hálfellefu. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni eru fimm um borð; flugstjóri, flugmaður, tveir stýrimenn/sigmenn og flugvirki/spilmaður.
Leitarsvæðið er nokkuð stórt en leitað verður meðfram ströndinni frá Skaga, á Vatnsnesi og Heggstaðanesi en einnig verður leitað á Ströndum vestan Húnaflóa. Veður og skilyrði til leitar á svæðinu eru sögð mjög góð.
Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Blönduósi, segir fólk á svæðinu taka ferðum bjarnarins af mikilli ró en skyttur hafa verið látnar í viðbragðsstöðu.
„Við þekkjum náttúrlega alla hér og köllum til þær skyttur sem næstar eru ef eitthvað fréttist. Menn eru bara í viðbragðsstöðu en það er ekki skytta á hverjum hól,“ segir Kristján og bætir við að um sé að ræða mjög vana menn og örstuttan tíma taki að ná í þá sé þess þörf.
„Það eru mikil rólegheit yfir þessu öllu saman. Maður verður ekki var við neinn óróa. Fólk er meðvitað en það er enginn ótti og allt gengur sinn vanagang.“
Margt ferðafólk er á svæðinu og biður lögreglan á Blönduósi fólk að vera meðvitað um ástandið og hafa varann á. Hafi fólk einhverjar upplýsingar varðandi ferðir hvítabjarnarins er það beðið að hafa samband við lögreglu.