Húmanistaflokkurinn telur að tillögum stjórnlagaráðs sé áfátt í grundvallaratriðum. Ekkert sé þar að finna ákvæði um fjármálavaldið sem orsakaði hrunið 2008.
„Í Búsáhaldabyltingunni var kallað eftir nýrri stjórnarskrá sem samin yrði af fólkinu sjálfu með þjóðfundafyrirkomulagi. Sú leið var ekki farin. Tillögum Stjórnlagaráðs er áfátt í grundvallaratriðum,“ segir í ályktun frá Húmanistaflokknum.
„Tillögur stjórnlagaráðs eru afturför frá málskotsréttinum í 26. grein stjórnarskrárinnar en þar eru engin málefni undanþegin frá þjóðaratkvæðagreiðslum. Að færa fólkinu rétt til að krefjast sjálft þjóðaratkvæðagreiðslu, en takmarka hann í grundvallarmálefnum, gengur þvert gegn kröfu Búsáhaldabyltingarinnar um völdin til fólksins. Húmanistaflokkurinn leggur til að hafið verði ferli borgaraþinga og þjóðfunda hið fyrsta þar sem fulltrúar eru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Í þessu ferli yrði þátttakendum gert kleift að skrifa nýja stjórnarskrá og hafi til þess nægan tíma. Aðeins með því að þjóðin sjálf skrifi stjórnarskrá sína mun nást sú þjóðarsátt sem þarf að ríkja um hana.“