Fjöldi fyrirtækja í rekstri gistiheimila og veitingastaða í svörtum rekstri er 15,4% samkvæmt skýrslu ASÍ, RSK og SA í mars 2012. Þá var talan enn hærri árið 2011 eða allt að 17,2%. Í Viðskiptablaðinu í dag er greint frá neðanjarðarhagkerfinu innan ferðaþjónustunnar sem vindur upp á sig. Þar er sagt að umfangið sé a.m.k. um 10-12 milljarðar króna á ársgrundvelli hér á landi.
„Við höfum verið að leita uppi leyfislausar gistingar og sent upplýsingar til stjórnvalda. Við fundum gríðarlegan fjölda gistiheimila í fyrra og það virðist vera endalaust framboð inn á markaðinn af ýmiskonar íbúðum og heimagistingum fyrir ferðamenn,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is.
„Í febrúar í fyrra fundum við leyfislaus gistirými á höfuðborgarsvæðinu sem voru rúmlega það framboð sem tvö stærstu hótel landsins bjóða upp á. Það þarf að hafa eitthvert eftirlit með þessu, þetta er allt aga- og eftirlitslaust.
Það getur ekki verið verkefni okkar, vinnuveitendasamtaka, að hafa eftirlit með atvinnustarfseminni. Það þarf að hafa eftirlit með þessu því núna er þetta allt bæði aga- og eftirlitslaust,“ segir Erna.
Óþolandi fyrir þá sem fara að lögum
Erna lýsir yfir áhyggjum af bæði samkeppnismálum og öryggismálum vegna fjölda gistiheimila sem rekin eru í leyfisleysi. „Þetta er óþolandi samkeppnisstaða fyrir þá sem fara að lögum og reglum að horfa upp á stöðugt aukið framboð af gistingu sem veður uppi án þess að sækja um leyfi eða skrá sig á nokkurn hátt. Það þurfa allir að sitja við sama borð og það verður ekki fyrr en tekið verður á þessu.
Einnig höfum við áhyggjur af öryggismálum, sérstaklega þegar verið er að leigja ferðamönnum gistingu sem ekki hefur verið tekin út. Þetta er því orðið bæði samkeppnismál og öryggismál. Fólk verður að vera visst um að öryggismál séu í lagi þar sem það leggur sig til svefn,“ segir Erna sem segir þau verða fyrst og fremst vör við svarta atvinnustarfsemi í gistirýmum þó það sé að einhverju leyti einnig í afþreyingarferðum.
„Eins og þegar eldgosin stóðu yfir þá urðum við vör við að það var verið að gera út margar jeppabifreiðar í leyfisleysi. Það er þó ekki jafn slæmt ástand í afþreyingunni líkt og í rekstri gistiheimila.“ Erna telur mikilvægast, auk þess að auka eftirlit, að höfða til fólks að sækja um leyfi og láti fara yfir reksturinn. Hún vonar að innst inni vilji allir selja góða vöru sem fólk getur treyst.