Hjörtur Magnason, héraðsdýralæknir á Austurlandi, segir að það sé ekkert vit í því að menn ætli að skjóta ísbjörn með byssu sem er ætluð til að skjóta hreindýr. Hann segist ítrekað hafa óskað eftir að hér sé unnin viðbragðsáætlun við kom ísbjarna.
„Ég er búin að tala um það sl. 6-8 ár, að hér þurfi að vera til viðbragðsáætlun þegar ísbirnir koma til landsins, en það er eins og allt komist í uppnám þegar björninn kemur og enginn veit hvað á að gera. Þetta er bagalegt fyrir okkur út á við og líka fyrir okkur heima. Það er alls ekki rétt að vera hleypa fólki af stað með hreindýrariffla til að skjóta birni,“ segir Hjörtur.
Hjörtur segir að veiðimenn í N-Ameríku, Alaska, Svíþjóð og Finnlandi noti á bjarnarveiðum ekki minna en cal.338 Magnum. Þetta sé alþjóðleg krafa, hvort sem um er að ræða brúnbjörn eða hvítabjörn. Hér hafi menn farið af stað í leit að hvítabjörnum með 243 kalibera riffla sem eru ætlaðir til refa- og hreindýraveiða.
Hjörtur segir hægt að aflífa björn með minni byssum, en þá verði menn að hitta í hausinn á dýrinu eða í slagæð.
„Mér finnst að það eigi að vera til staðar viðbragðsáætlun og það eigi að vera útvaldir menn á hverju svæði sem hafi réttindi og réttan kaliber og rétt stillar, skoðaðar byssur,“ segir Hjörtur.