Leit þyrluáhafnar Landhelgisgæslunnar að hvítabirni hefur engan árangur borið, þrátt fyrir ítarlega leit. Áhöfnin fann hins vegar öldumælisdufl í dag sem hafði slitnað upp fyrir nokkru. Hafði duflið rekið frá Straumnesi, fyrir Horn og inn á Strandir.
Gæslan segir að lent hafi verið við duflið og það tekið um borð. Þá var flogið á Ísafjörð til eldsneytistöku og síðan til Reykjavíkur þar sem lent var kl. 17:30.
Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni, að kl. 16:55 í gær hafi borist beiðni frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um aðstoð þyrlu eftir að óstaðfestar fregnir höfðu borist af hvítabirni á sundi við Vatnsnes.
Þegar þyrlan TF-LIF kom á svæðið var fljótlega lent við Geitafell þar sem för sáust í sandinum sem talin voru vera eftir bjarndýrið. Var í framhaldinu leitað ítarlega um Vatnsnes án árangurs. Í samráði við lögreglu var þá ákveðið að gera hlé á leitinni til morguns.
Í morgun var svo farið að nýju í loftið og leitað með strandlengjunni frá Skaga inn Húnafjörð, yfir Þingeyrasand og fyrir Vatnsnes. Var síðan haldið áfram alveg vestur um og norður í Bjarnarfjörð á Hornströndum.