Líklegast að kosið verði 20. október

Undirbúningur undir þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskránni er að hefjast. Jóhannes Tómasson, upplýsingafulltrúi í innanríkisráðuneytinu, segir gengið út frá því að atkvæðagreiðslan fari fram 20. október.

Ekki er búið að taka formlega ákvörðun um tímasetningu atkvæðagreiðslunnar, en í þingsályktunartillögu Alþingis segir að atkvæðagreiðslan skuli fara fram eigi síðar en 20. október. Jóhannes segir að við atkvæðagreiðsluna sé fylgt sömu reglum og gert er við alþingiskosningar, en það þýðir að auglýsa þarf utankjörfundaratkvæðagreiðslu með sömu fyrirvörum og við almennar kosningar. Hann segir að miðað við það veiti mönnum ekkert af tímanum og því sé líklegast að atkvæðagreiðslan fari fram 20. október.

Samkvæmt þingsályktunartillögunni um þjóðaratkvæðagreiðsluna er það hlutverk Alþingis að útbúa kynningargögn um tillögur stjórnlagaráðs og þær spurningar sem leggja á fyrir þjóðina.

Ákveðið hefur verið að atkvæðagreiðsla um sameiningu Garðabæjar og Álftaness verði samhliða þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fundargerð samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna segir að atkvæðagreiðslan fari fram 20. október.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert