Þyrlan að hefja leit

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rúmlega fjögur í gær.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rúmlega fjögur í gær. mynd/Róbert Jack

Þyrla Landhelgisgæslu Íslands, TF-LIF, er í þann mund að hefja leit að nýju að hvítabirni við Húnaflóa. Í gær fann áhöfn þyrlunnar spor, sem talin eru vera eftir bjarndýr, í fjörunni neðan við Geitafell á Vatnsnesi en áður höfðu ítalskir ferðamenn orðið hvítabjarnarins varir og tilkynnt um ferðir hans.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi verða um borð í þyrlunni, auk áhafnar, leitarmenn og skytta.

Þær upplýsingar fengust frá Landhelgisgæslunni að skilyrði til leitar væru góð og verður staðan reglulega metin í samráði við lögreglu.

Þyrla Gæslunnar mun fínkemba svæðið frá Skagatá, inn með austanverðum Húnaflóa, Vatnsnes og Heggstaðanes og síðan Strandir.

Fólk er beðið um að hafa varann á sér og tilkynna til lögreglu hafi það einhverjar upplýsingar varðandi ferðir hvítabjarnarins.

Ferðamenn enn ófundnir

Lögreglan vill ná tali af ferðamönnunum sem tilkynntu um ferðir bjarnarins. Lögreglan á Blönduósi biður þá sem vita hvar ferðamennina er að finna að hafa samband í síma 455-2666.

Talið er að ferðamennirnir aki um á silfurlituðum jepplingi og gætu þeir hafa gist einhvers staðar í Húnavatnssýslunum í nótt.

Mynd er tekin í morgun frá Blönduósi yfir á Vatnsnes …
Mynd er tekin í morgun frá Blönduósi yfir á Vatnsnes austanvert á milli er Húnafjörður. Ljósmynd/Jón Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka