Skjálftavirkni hefur haldist stöðug í Mýrdalsjökli undanfarnar vikur en virkni í Mýrdalsjökli jókst talsvert í júlí 2011. Hafa hrinur mælst reglulega í Kötluöskjunni.
„Nú hafa verið einhverjir skjálftar inni í Kötluöskjunni síðustu vikur sem er nokkuð svipað og hefur verið síðasta ár frá 9. júlí 2011 þegar hlaupið varð. Skjálftarnir jukust líka meira þegar fór að hlýna á síðustu vikum og fylgist Veðurstofan vel með öllum hreyfingum í Kötlu,“ sagði eldfjallafræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.
Það eru 94 ár síðan Katla gaus síðast árið 1918, en Kötlugos hafa að meðaltali orðið tvisvar á öld. Miklar líkur eru taldar á Kötlugosi innan tíu ára.
Meiri jarðvirkni er í kringum Kötlu á sumrin en á veturna en árstíðabundnar sveiflur í þykkt íshettunnar yfir eldfjallinu hafa áhrif á spennu í berginu undir henni.
„Það er alltaf viss óróleiki í Kötlu sem hefur þó verið meiri eftir hlaupið í fyrra.“