„Ekki semja um makrílinn“

Jón Kristjánsson fiskifræðingur segir að Íslendingar eigi ekki að semja við Norðmenn og Evrópusambandið um makrílinn. Hann segir að stofnmæling á makríl sé tóm vitleysa og ráðgjöfin sé í samræmi við það.

„Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni,“ skrifar hann í pistli á bloggsíðu sinni undir yfirskriftinni „Ekki semja um makrílinn“.

Jón segir að Norðmenn og ESB reyni enn að þvinga Íslendinga og Færeyinga til að semja um aflahlutdeild, sem í raun þýði að þeir séu að ræna þjóðirnar fiskveiðum í eigin lögsögu.

„Með sömu rökum gætum við bannað Norðmönnum Bretum og Írum að veiða lax í sínum eigin ám því hluti laxastofna þeirra elst upp í íslenskri, færeyskri og grænlenskri lögsögu,“ skrifar hann.

Þá segir hann hann að fiskveiðistjóri ESB haldi því fram að nauðsyn sé á að semja því makríll sé ofveiddur og koma verði í veg fyrir útrýmingu stofnsins. Hann setur hins vegar spurningamerki við það að fiskurinn sé ofveiddur.

„Það er veitt meira en ICES (Alþjóða hafrannsóknaráðið) leggur til, en er eitthvað að marka þeirra ráðgjöf? Farið hefur verið groddalega fram úr henni í Barentshafi, þorskstofninn stækkar og ICES eltir og hækkar ráðgjöfina, þvert ofan í það sem þeir ættu að gera ef þeirra ráðgjöf hefði verið rétt og framúrkeyrslan valdið ofnýtingu stofnsins.

Stofnæling á makríl er tóm vitleysa, hún er gerð á 3 ára fresti og þá með því að telja hrogn í hafinu. Ráðgjöfin er í samræmi við það, auk þess sem hún byggist á því að veiða lítið svo stofninn stækki. Þeir halda nefnilega að það sér best sé að veiða sem minnst svo stofninn stækki. Þeir hugsa ekkert um að fæðan takmarkar stærð fiskstofna og stór stofn getur étið sig út á gaddinn,“ skrifar Jón. 

Þá segir hann að norskir fræðingar sjái merki um ofbeit á átu í Norðurhafi. Það sé einfaldlega ekki nóg fóður fyrir þessa stóru síldar-, makríl- og kolmunnastofna. Þetta geti verið ein ástæða þess að makríllinn sæki á Íslandsmið. Vegna of lítillar veiði sé að verða of lítið að éta heima fyrir.

„Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni. Ef við veiðum sem áður, og þeir líka kemur væntanlega í ljós að stofninn þolir það enda er það eðli fiskstofna að bregðast við aukinni nýtingu með aukinni framleiðslu. Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturninn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur,“ skrifar hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert