Ljósmyndir sem ítalskir ferðamenn tóku á miðvikudag af dýri sem þeir telja að hafi verið hvítabjörn hafa verið birtar. Lögreglan hefur náð tali af ferðamönnunum, en líkt og fram hefur komið komu þeir auga á björninn við Vatnsnes í gær. Ekkert hefur hins vegar sést af birninum í dag þrátt fyrir mikla leit.
TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók þátt í leitinni, bæði í gær og í fyrradag. Hún sneri aftur til Reykjavíkur síðdegis í gær, fimmtudag.
Landhelgisgæslunni barst á miðvikudag kl. 16:55 beiðni frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar um aðstoð þyrlu eftir að óstaðfestar fregnir bárust af hvítabirni á sundi við Vatnsnes.
Þegar þyrlan kom á svæðið var fljótlega lent við Geitafell þar sem för sáust í sandinum sem talin voru vera eftir bjarndýrið. Var í framhaldinu leitað ítarlega um Vatnsnes án árangurs.
Í gærmorgun var farið að nýju í loftið og leitað með strandlengjunni frá Skaga inn Húnafjörð, yfir Þingeyrasand og fyrir Vatnsnes. Var síðan haldið áfram alveg vestur um og norður í Bjarnafjörð á Hornströndum.