Umferðarstofa hvetur ökumenn til þess að sýna aðgæslu á ferðum sínum en búast má við mikilli umferð um helgina.
Víða um land verða hátíðahöld um þessa helgi. Þjóðlagahátíð verður á Siglufirði, Vopnaskak á Vopnafirði, Írskir dagar á Akranesi, Besta útihátíðin á Gaddstaðaflötum við Hellu, hjólreiðakeppnin Tour de Hvolsvöllur á Hvolsvelli og Dýrafjarðardagar á Þingeyri.
„Á Suðurlandi verður mikill fjöldi hjólreiðamanna á ferð á laugardag í tilefni af hjólreiðakeppninni og er sérstök ástæða til að hvetja til varúðar gagnvart þeim.
Þeir sem ferðast með eftirvagna þurfa að tryggja öryggi þeirra og það sem að jafnaði er talað um þegar umferðarhelgar fara í hönd á við. Það snýst um öryggisbúnað, hraða og almenna aðgæslu. Fólk er hvatt til að aka ekki eftir neyslu áfengis og einmitt að ætla sér góðan tíma til að hreinsa það úr blóðinu. Það tekur lengri tíma en margur hyggur,“ segir í varnaðarorðum Umferðarstofu.