Mjög hlýtt hefur verið á Suðausturlandi í dag og fór hiti á Kirkjubæjarklaustri upp í 25 stig. Að sögn Þorsteins V. Jónssonar veðurfræðings mun heldur kólna á morgun, en síðan hlýnar aftur um miðja vikuna.
Hitinn fór upp í 23 stig í Skaftafelli en þar er búið að vera afar gott veður alla helgina.
Þorsteinn segir að það muni rigna eitthvað í nótt, en annars sé fátt sem bendi til að það rigni að ráði á landinu næstu sólarhringana. Hann segir að mjög gott veður verði næstu daga og sólríkt. Spáð er að hiti á Suðvesturlandi verði víða um 16 stig.