Í dag, 8. júlí, eru liðin 90 ár frá því að Ingibjörg H. Bjarnason var fyrst kvenna kosin til setu á Alþingi, en hún var landskjörinn alþingismaður 1922-1930. Af því tilefni bauð forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, öllum þeim konum sem tekið hafa sæti á Alþingi, bæði sem þingmenn og varaþingmenn, til hátíðarsamkomu í Alþingishúsinu.
Á hátíðarsamkomunni sem nú stendur yfir og hófst kl. þrjú síðdegis flutti forseti Alþingis ávarp. Þar munu tveir fyrrverandi þingmenn flytja erindi, Kristín Ástgeirsdóttir fjallar nú um Ingibjörgu H. Bjarnason og Helga Guðrún Jónasdóttir mun á eftir fjalla um stjórnmálaþátttöku kvenna. Kvennakórinn Vox feminae syngur við athöfnina.
Fjölmenni er í þingsalnum og má þar meðal annars sjá frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrv. forseta Íslands, Guðrúnu Erlendsdóttur, fyrrv. forseta Hæstaréttar, Ingibjörgu Benediktsdóttur, fyrrv. forseta Hæstaréttar, Sólveigu Pétursdóttur, fyrrv. forseta Alþingis, Salóme Þorkelsdóttur, fyrrv. forseta Alþingis, og Ragnhildi Helgadóttur, fyrrv. menntamálaráðherra.
Kristín fór yfir líf og starf Ingibjargar, störf hennar á þingi, veru hennar í Íhaldsflokknum og samskipti hennar við aðra þingmenn. Erindið féll í góðan jarðveg í þingsalnum og mátti heyra hlátrasköll á tíðum.
Athöfnin er í sal Alþingis. Bein útsending er frá athöfninni á sjónvarpsrás og vef Alþingis og má nálgast hana hér.