Skilaboð til Ísraels og Palestínu

Róbert Marshall, formaður Íslandsdeldar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu.
Róbert Marshall, formaður Íslandsdeldar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ernir Eyjólfsson

„Þeir vísa yfirleitt í ástandið í Palestínu og að með þessu sé verið að veita stjórnmálasamtökum og hryðjuverkasamtökum eins og Hamas aðild að ÖSE, sem er náttúrlega langt frá sannleikanum og afbökun á því sem verið er að flytja hérna vegna þess að hér á fundinum eru sem gestir fulltrúar heimastjórnar Palestínu,“ segir Róbert Marshall, formaður Íslandsdeildar ÖSE, um helstu rök þeirra sem höfnuðu tillögu hans og Björns Vals Gíslasonar á ÖSE-þinginu í Mónakó nú um helgina.

Tillagan var þess efnis að heimastjórn Palestínu yrði veittur réttur til að sitja fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu án þess þó að hafa þar tillögu- eða atkvæðisrétt. Sex aðrar Miðjarðarhafsþjóðir, þar á meðal Ísraelar, hafa þennan rétt. Tillagan var felld með 28 atkvæðum gegn 22.

Andstaðan helgast af ótta við að Palestínumenn fái betri samningsstöðu

„Breytingin á þeirra stöðu úr gestum í það sem kallað er á ensku „non member partner“ þýðir bara að þeir sitja fjórum sætaröðum framar á fundinum og hafa málfrelsi og geta blandað sér í umræðurnar. Rétt eins og sex aðrar Miðjarðarhafsþjóðir hafa,“ sagði Róbert. Hann segir offorsið í andstöðunni helgast af því að Ísraelar og Bandaríkjamenn telji að þetta gæti bætt samningsstöðu Palestínumanna.

Ætlast til að Palestínumenn vinni í samræmi við meginstefnu ÖSE

„Samskonar tillaga hefur áður verið flutt og felld hér í ÖSE-þinginu, en núna var það mjög naumt. Í rauninni hefði ekki þurft nema þrjá þingmenn, því sumar af þessum þjóðum hafa tvö atkvæði þannig að tíminn er með Palestínumönnum í þessum efnum.

Auðvitað er ekki bara verið að senda skilaboð með þessari tillögu til Ísraela um að beita sér fyrir samningum og varanlegri lausn heldur líka verið að setja þrýsting á Palestínumenn og segja þeim að við berum til þeirra traust og við ætlumst til þess að þeir vinni í samræmi við meginstefnu og prinsipp ÖSE, sem er náttúrlega öryggis- og samvinnustofnum sem beitti sér fyrir lýðræði og lýðræðislegum leikreglum,“ sagði Róbert.

Málið verður endurflutt á næsta ári

Var full samstaða meðal Norðurlandaþingmanna í málinu?

„Hér eru þingmenn sjálfstæðir og starfa í nefndum. Það var stuðningur meðal allra Norðurlandaþjóðanna við tillöguna. Hún naut góðs stuðnings í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.“

En hver verða næstu skref í málinu?

„Það er bara að ýta málinu áfram og það er haustfundur ÖSE í Tírana í Albaníu þar sem við munum beita okkur áfram í málinu og í samvinnu við félaga okkar, til dæmis í Noregi, að halda málinu opnu og flytja það aftur á næsta ári. Þetta hefur þegar verið gert og skilað góðum árangri í Evrópuráðinu, UNESCO og í Alþjóðaþingmannasamtökunum. Tíminn er núna í þessu,“ sagði Róbert Marshall í samtali við blaðamann frá Mónakó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert