Besta ber sig fjárhagslega

Besta útihátíðin var haldin á Gaddstaðaflötum um helgina..
Besta útihátíðin var haldin á Gaddstaðaflötum um helgina.. mbl.is/Gunnar Aron Ólason

Forsvarsmenn Bestu útihátíðarinnar segja að hátíðin beri sig fjárhagslega. Hinsvegar vegi kostnaður af löggæslu og sjúkraþjónustu virkilega þungt. Að sögn Haraldar Ása Lárussonar er rekstarumhverfi hátíðarinnar töluvert ólíkt hinni dæmigerðu bæjarhátíð. „Við vorum með lögreglumenn og yfir 60 menn í gæslu. Einnig vorum við með fíkniefnahund sem fór um svæðið,“ segir Haraldur og leggur áherslu á að kostnaður þessa vegna fari á reikning hátíðarinnar.

„Við vorum mjög sátt með þann fjölda sem mætti, á milli 4.000 og 5.000 manns. Þetta var ákveðin tilraun eftir að við vorum með Quarashi í fyrra. Við ákváðum að vera með þrjú bönd í ár sem ekki hafa komið lengi saman. Það er ljóst að til að fá meiri fjölda þarf að vera með erlend atriði,“ segir Haraldur.

Hátíðin gekk vel að sögn Haraldar. "Við fengum hrós frá bæði yfirlögregluþjóni og yfirlækni. Þeir sögðu að starfsfólk okkar væri með allt á hreinu varðandi gæslu og annað. Því miður kom ákveðið mál upp á föstudagskvöldið er stúlku var nauðgað. En maðurinn náðist og málið hefur verið kært."

55 fíkniefnamál komu upp og lögreglan hefur lýst áhyggjum sínum yfir því magni eiturlyfja sem virðist vera í umferð. „Já en við vorum með öfluga gæslu og einnig fíkniefnahund. Það var tekið mjög strangt á þessu, þeim sem teknir voru með fíkniefni var vísað af svæðinu samstundis.“

Töluvert rusl var eftir helgina en Haraldur segir það alltaf vera  eftir útihátíðir. „Ruslið kemur af því við megum ekki vera með ruslatunnur á lóðinni hjá okkur vegna hættu á íkveikjum. Forsvarsmenn Þjóðhátíðar glíma við sama vandamál. “

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert