Greiði 30 milljónir í sekt

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt framkvæmdastjóra, stjórnarmann og prókúruhafa einkahlutafélags í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 30.550.000 krónur í sekt til ríkissjóðs fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum.

Maðurinn sem rak Úlfinn lagerverslun stóð ekki skil á virðisaukaskattsskýrslum einkahlutafélagsins á lögmæltum tíma vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember rekstrarárið 2009, september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2010 og janúar-febrúar rekstrarárið 2011.

Þá stóð hann ríkissjóði ekki skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins vegna uppgjörstímabilanna september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2009, september-október og nóvember-desember rekstrarárið 2010 og janúar-febrúar rekstrarárið 2011.

Fangelsi í 8 mánuði verði sekt ekki greidd

Maðurinn játaði brot sitt og samræmdist játningin rannsóknargögnum málsins, en rannsókn fór fram á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til sérstaks saksóknara 9. desember 2011.

Upphæðin sem ríkissjóður varð af nam 15.267.842 krónum. Sekt vegna umrædds brots skal nema að lágmarki tvöfaldri þeirri greiðslu sem ekki voru staðin skil á og því var honum gert að greiða 30.550.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Manninum er gert að greiða sektina innan fjögurra vikna en annars skal hann sæta fangelsi í átta mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert