Breytingar voru gerðar á þjónustu Póstsins um mánaðamótin síðustu og geta sendendur nú valið um tvær þjónustuleiðir, A og B. Þá hækkaði einnig póstburðargjald. Breytingarnar eru gerðar til hagræðingar og eru sagðar nauðsynlegar til að standa undir magnminnkun sem verið hefur í bréfpósti.
Svo virðist sem kynning Póstsins á breytingunum hafi ekki náð eyrum allra. Á dögunum hringdi lesandi mbl.is á Ísafirði á ritstjórnarskrifstofuna og sagði farir sínar ekki sléttar. Sagðist hann hafa ætlað að senda bréf innanbæjar og þá verið gerð grein fyrir nýju þjónustuleiðunum. Hagkvæmari kosturinn er að velja B-leið en þá berst pósturinn innan þriggja daga.
Einnig var hann upplýstur um að bréfið sem hann hugðist senda til fyrirtækis í bænum ætti fyrir höndum ferðalag til Reykjavíkur til þess eins að verða sent aftur til Ísafjarðar. Er það sökum þess að pósturinn er flokkaður í Reykjavík.
Lesandinn sagðist hafa klórað sér í kollinum yfir öllu saman, hætt við að nýta sér þjónustuna og gengið með póstinn sjálfur í fyrirtækið.
Í tilkynningu sem lesa má á vefsvæði Póstsins segir að viðskiptavinir muni geta valið um tvo kosti, A-póst eða B-póst þegar send eru bréf í lægsta þyngdarflokki, 0-50 gr. A-póstur fari í dreifingu daginn eftir póstlagningu en B-pósti sé dreift innan þriggja daga. Verð á A-pósti sé 120 kr. en verð á B- pósti 103 kr.
Til samanburðar var verð fyrir bréfsendingu í umræddum þyngdarflokki 97 krónur fyrir breytinguna.
Ágústa Hrund Steinarsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar, segir að enn sé verið að slípa til nýja fyrirkomulagið en það fari mjög vel af stað. „Það þurfti til verðhækkun, en þarna reynum við að koma til móts við viðskiptavini og gefum þeim val um hvort þeir vilja forgangsþjónustu eða örlítið lengri tíma til dreifingar.“
Breytingin er í samræmi við það sem fram kom í árskýrslu Póstsins fyrir árið 2011. Þar kom fram að verulegur samdráttur hefði orðið í bréfasendingum á undanförnum árum. Þannig hefði bréfsendingum innan einkaréttar fækkað um 30% frá árinu 2006. Og áætlað er að þeim fækki enn frekar eða um allt að 16% til ársins 2015.
Tap var af rekstri Póstsins í fyrra og mátti rekja það að mestu til hærri einingarkostnaðar vegna minnkandi bréfamagns og aukins tilkostnaðar við dreifikerfi.
Í ársskýrslunni sagði einnig, að frekari hagræðingu þurfi að ná og megi gera það með auknum sveigjanleika í afhendingartíma bréfa.
Hvað varðar það að flokka innanbæjarpóst á Ísafirði í Reykjavík segir Ágústa Hrund það ekki tengjast umræddum breytingum. Á höfuðborgarsvæðinu sé vélbúnaður til að flokka póstinn og það sé ákveðin hagræðing fólgin í því enda fái pósthúsin þá póstinn til baka tilbúinn til útburðar. „Það er óhagkvæmt að vera með flokkun á hverju einasta pósthúsi, en að sjálfsögðu er skilyrðið að póstinum sé dreift á þeim tíma sem beðið er um. Hann berst alltaf innan þriggja daga ef sú þjónusta er keypt.“
Hún segir þetta ekki nýtt fyrirkomulag en ávallt sé verið að skoða hvað sé hagkvæmt. „Ef við ætlum að láta flokka póstinn á hverjum stað kallar það á fleira starfsfólk þannig að það þarf að finna út hvað er best fyrir hvernig stað. Það skiptir ekki höfuðmáli hvar hann er flokkaður ef hann berst á réttum tíma.“