„Allar forsendur brostnar

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11 mbl.is/Golli

„Miðað við það sem hann lagði upp með þegar hann gerði tilboð í húsið og keypti það þá eru allar forsendur brostnar,“ segir Ragnhildur Sverrisdóttir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfssonar, um friðun á innra byrði hússins að Fríkirkjuvegi 11. Hún segir að Björgólfur muni þurfa tíma til að ákveða næstu skref.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hefur Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fallist á tillögu Húsafriðunarnefndar um að friða innra byrði hússins. Er það þar með friðað í heild sinni.

Í mars 2004 var sagt frá áformum Reykjavíkurborgar að selja húsið við Fríkirkjuveg 11 en það hýsti þá skrifstofur Íþrótta- og tómstundaráðs. Þá sagði Anna Kristinsdóttir, þáverandi formaður ÍTR, að  húsnæði hentaði ekki vel undir starfsemi ÍTR og ekki sem skrifstofuhúsnæði almennt. „Það væri líka borginni til sóma ef hægt væri að koma aftur að upprunalegri notkun hússins.“

Björgólfur Thor keypti húsið fyrir 650 milljónir króna og í yfirlýsingu frá Novator, félagi hans, sagði að húsið yrði fært til upphaflegrar gerðar eftir því sem unnt væri, og húsgögn og búnaður valin með tilliti til andrúmslofts hússins. Fríkirkjuvegur 11 sé einstakt og merkilegt hús í sögu Reykjavíkur og ætlunin sé að vernda það og sýna jafnt því og sögunni virðingu.

Fulltrúar Vinstri grænna í borgarstjórn voru hins vegar mjög á móti sölunni og lögðu fram tillögu þess efnis að borgarstjóra væri falið að leita allra leiða til að hætta við söluna. Meðal þeirra sem lögðu fram tillöguna var Svandís Svavarsdóttir, núverandi umhverfisráðherra.

Í maí 2009 lét svo fulltrúi Vinstri grænna í borgarstjórn bóka að það væri einlæg von borgarfulltrúa flokksins að Fríkirkjuvegur 11, sem og aðrar opinberar eignir sem auðmenn hafa notað ímyndað fjármagn til að kaupa, komist sem fyrst í hendur almennings aftur.

Fyrirætlan Björgólfs lá ljós fyrir

Ragnhildur segir að það hafi legið ljóst fyrir frá upphafi hvernig Björgólfur Thor ætlaði að nýta húsið og hann hafi unnið út frá þeim hugmyndum. Fenginn hafi verið arkitekt sérmenntaður í endurgerð og viðhaldi gamalla húsa til að gera tillögur en þeim hafi öllum verið hafnað af Húsafriðunarnefnd. „Þá þurfa menn tíma til að velta fyrir sér upp á nýtt hvernig húsið nýtist og hvað verður gert.“

Spurð að því hvort það komi til greina að höfða skaðabótamál á hendur borginni vegna brotinna forsenda segist Ragnhildur ekki kunna allar lagaflækjur sem kunni að liggja að baki slíkri ákvörðun. „Það var ljóst að húsið lyti húsafriðunarlögum þar sem það var friðað að utan. Þá stóð til að fara í endurnýjun á ytra byrðinu og taka það í gegn í sumar, en nú verður að hugsa þetta allt upp á nýtt. Ef það er útilokað að nýta húsið eins og hann gekk út frá þegar hann keypti það, þá þarf hann tíma til að ákveða næstu skref.“

Eins og áður segir keypti Björgólfur húsið fyrir 650 milljónir króna og segist Ragnhildur ekki viss um hvort verðmiðinn á því hafi hækkað eða lækkað við það að húsið sé friðað í heild. „Ég veit ekki hvort einhver hefur áhuga á að kaupa það eða hann áhuga á að selja það, þetta verður að koma í ljós.“

Ragnhildur segir ekki endanlega ljóst hvort hægt sé að nýta húsið einhvern veginn eins og til var ætlast í upphafi þó að það sé friðað. „Það er náttúrlega ekki allt upprunalegt að innan. Meðal annars var grafinn út kjallarinn á sínum tíma. Þetta hús er sannarlega barn síns tíma og það þarf að gera ansi mikið fyrir það svo það verði nýtanlegt.“

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn
Fríkirkjuvegur 11.
Fríkirkjuvegur 11. Friðrik Tryggvason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert