„Allar forsendur brostnar

Fríkirkjuvegur 11
Fríkirkjuvegur 11 mbl.is/Golli

„Miðað við það sem hann lagði upp með þegar hann gerði til­boð í húsið og keypti það þá eru all­ar for­send­ur brostn­ar,“ seg­ir Ragn­hild­ur Sverr­is­dótt­ir, talsmaður Björgólfs Thors Björgólfs­son­ar, um friðun á innra byrði húss­ins að Frí­kirkju­vegi 11. Hún seg­ir að Björgólf­ur muni þurfa tíma til að ákveða næstu skref.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag hef­ur Katrín Jak­obs­dótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, fall­ist á til­lögu Húsafriðun­ar­nefnd­ar um að friða innra byrði húss­ins. Er það þar með friðað í heild sinni.

Í mars 2004 var sagt frá áform­um Reykja­vík­ur­borg­ar að selja húsið við Frí­kirkju­veg 11 en það hýsti þá skrif­stof­ur Íþrótta- og tóm­stundaráðs. Þá sagði Anna Krist­ins­dótt­ir, þáver­andi formaður ÍTR, að  hús­næði hentaði ekki vel und­ir starf­semi ÍTR og ekki sem skrif­stofu­hús­næði al­mennt. „Það væri líka borg­inni til sóma ef hægt væri að koma aft­ur að upp­runa­legri notk­un húss­ins.“

Björgólf­ur Thor keypti húsið fyr­ir 650 millj­ón­ir króna og í yf­ir­lýs­ingu frá Novator, fé­lagi hans, sagði að húsið yrði fært til upp­haf­legr­ar gerðar eft­ir því sem unnt væri, og hús­gögn og búnaður val­in með til­liti til and­rúms­lofts húss­ins. Frí­kirkju­veg­ur 11 sé ein­stakt og merki­legt hús í sögu Reykja­vík­ur og ætl­un­in sé að vernda það og sýna jafnt því og sög­unni virðingu.

Full­trú­ar Vinstri grænna í borg­ar­stjórn voru hins veg­ar mjög á móti söl­unni og lögðu fram til­lögu þess efn­is að borg­ar­stjóra væri falið að leita allra leiða til að hætta við söl­una. Meðal þeirra sem lögðu fram til­lög­una var Svandís Svavars­dótt­ir, nú­ver­andi um­hverf­is­ráðherra.

Í maí 2009 lét svo full­trúi Vinstri grænna í borg­ar­stjórn bóka að það væri ein­læg von borg­ar­full­trúa flokks­ins að Frí­kirkju­veg­ur 11, sem og aðrar op­in­ber­ar eign­ir sem auðmenn hafa notað ímyndað fjár­magn til að kaupa, kom­ist sem fyrst í hend­ur al­menn­ings aft­ur.

Fyr­ir­ætl­an Björgólfs lá ljós fyr­ir

Ragn­hild­ur seg­ir að það hafi legið ljóst fyr­ir frá upp­hafi hvernig Björgólf­ur Thor ætlaði að nýta húsið og hann hafi unnið út frá þeim hug­mynd­um. Feng­inn hafi verið arki­tekt sér­menntaður í end­ur­gerð og viðhaldi gam­alla húsa til að gera til­lög­ur en þeim hafi öll­um verið hafnað af Húsafriðun­ar­nefnd. „Þá þurfa menn tíma til að velta fyr­ir sér upp á nýtt hvernig húsið nýt­ist og hvað verður gert.“

Spurð að því hvort það komi til greina að höfða skaðabóta­mál á hend­ur borg­inni vegna brot­inna for­senda seg­ist Ragn­hild­ur ekki kunna all­ar lagaflækj­ur sem kunni að liggja að baki slíkri ákvörðun. „Það var ljóst að húsið lyti húsafriðun­ar­lög­um þar sem það var friðað að utan. Þá stóð til að fara í end­ur­nýj­un á ytra byrðinu og taka það í gegn í sum­ar, en nú verður að hugsa þetta allt upp á nýtt. Ef það er úti­lokað að nýta húsið eins og hann gekk út frá þegar hann keypti það, þá þarf hann tíma til að ákveða næstu skref.“

Eins og áður seg­ir keypti Björgólf­ur húsið fyr­ir 650 millj­ón­ir króna og seg­ist Ragn­hild­ur ekki viss um hvort verðmiðinn á því hafi hækkað eða lækkað við það að húsið sé friðað í heild. „Ég veit ekki hvort ein­hver hef­ur áhuga á að kaupa það eða hann áhuga á að selja það, þetta verður að koma í ljós.“

Ragn­hild­ur seg­ir ekki end­an­lega ljóst hvort hægt sé að nýta húsið ein­hvern veg­inn eins og til var ætl­ast í upp­hafi þó að það sé friðað. „Það er nátt­úr­lega ekki allt upp­runa­legt að inn­an. Meðal ann­ars var graf­inn út kjall­ar­inn á sín­um tíma. Þetta hús er sann­ar­lega barn síns tíma og það þarf að gera ansi mikið fyr­ir það svo það verði nýt­an­legt.“

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólf­ur Thor Björgólfs­son. mbl.is/​Krist­inn
Fríkirkjuvegur 11.
Frí­kirkju­veg­ur 11. Friðrik Tryggva­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert