Ögmundur Jónasson ,innanríkisráðherra, telur að niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í máli blaðamannanna Erlu Hlynsdóttur og Bjarkar Eiðsdóttur eigi að nýta sem vegvísi fyrir íslenskt samfélag. Hann telur niðurstöðuna ekki áfellisdóm yfir íslenskum dómstólum og telur jákvætt að erlendir dómstólar séu leiðandi þegar kemur að mannréttindamálum á Íslandi.
Erla og Björk voru dæmdar til ábyrgðar og sektargreiðslu af íslenskum dómstólum fyrir orð sem þær höfðu eftir heimildarmönnum í íslenskum fjölmiðlum. Þær fóru með málið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu sem dæmdi þeim í hag.
„Niðurstaðan er vissulega afdráttarlaus og nokkuð sem okkur ber að horfa til. Ég lít á þetta sem vegvísi fyrir okkur sem samfélag og eitthvað sem við eigum að horfa til þegar litið er til framtíðar með mannréttindi í huga,“ segir Ögmundur.
Hann telur niðurstöðuna ekki áfellisdóm yfir íslenskum dómstólum. ,,Þetta hjálpar okkur að túlka anda laganna í þágu frjálsrar blaðamennsku. Mér finnst mjög gott að við fáum þetta mál fyrir dómstól Evrópuráðsins sem er orðinn okkur nokkurs konar vegvísir í mannréttindamálum,“ segir Ögmundur.
„Niðurstaðan sýnir að íslenskir dómstólar hafa túlkað tjáningarfrelsið of þröngt. Þetta víðara sjónarhorn er mér mjög að skapi. Mér finnst þetta gefa okkur sem samfélagi tækifæri á að líta á niðurstöðuna með sjálfsgagnrýnum hætti,“ segir Ögmundur.
Hann telur erlenda dómstóla vel til þess fallna að vera leiðandi í mannréttindamálum á Íslandi. „Mér finnst það í góðu lagi að erlendir dómstólar taki á málum sem lúta að mannréttindum og þjóðirnar sem eiga aðild að slíkum samtökum taki niðurstöðurnar alvarlega,“ segir Ögmundur.
„Öll opnun á umræðu og gagnrýni í samfélaginu er til góðs. Það breytir því ekki að það er mikil ábyrgð á fjölmiðlum að fara vel með upplýsingavaldið,“ segir Ögmundur.