54.000 farþegar ferðuðust með Herjólfi milli lands og eyja á tímabilinu frá 9. júní til 8. júlí.
„Já, þetta er gríðarlegur fjöldi. Inni í þessu eru þrjár mjög stórar helgar, Pæjumótið, Shellmótið og Goslokahátíðin. En engu að síður eru þetta rosalegar tölur. Það voru eitthvað um 12.000 bílar,“ segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs, spurður um málið í gærkvöldi.
Hann telur að um met sé að ræða í farþegaflutningi milli lands og Eyja.
Þetta gera rúmlega fjórtán þúsund manns að meðaltali á viku.
„Þetta er ofsalegur fjöldi. Það er meira og minna fullt í allar ferðir og endalaus straumur farþega, bæði Íslendinga og erlendra,“ sagði Gunnlaugur og kvað það skipta miklu fyrir Vestmannaeyjabæ að fá þennan fjölda gesta.