Lentu í 4.-5. sæti á Imagine Cup

Skjáskot úr leiknum Robert's Quest.
Skjáskot úr leiknum Robert's Quest.

Tölvuleikurinn Robert's Quest, sem hannaður var af hópi tölvunarfræðinema við HR og Margmiðlunarskólann, náði frábærum árangri á Imagine Cup 2012, hönnunarkeppni fyrir nema á vegum Microsoft-tölvurisans. Komst hann í fimm liða lokaúrslit, en upphaflega sendu yfir 500 lið leiki sína til þátttöku.

Lokaúrslitin fóru fram í Sydney í Ástralíu, en þema keppninnar var heimur þar sem tækni leysir erfiðustu vandamál heimsins. Var keppt í mörgum flokkum, en þeir þrír helstu voru hugbúnaðarhönnun, leikjahönnun fyrir Windows eða XBox og leikjahönnun fyrir síma. Keppti hópurinn, sem titlar sig Radiant Games, í flokki tölvuleikja fyrir Windows/XBox. 

Radiant Games skipa þeir Axel Örn Sigurðsson, Haukur Steinn Logason og Sveinn Fannar Kristjánsson, sem allir eru í tölvunarfræði í HR, ásamt Guðmundi Val Viðarssyni frá Margmiðlunarskólanum. Daníel Brandur Sigurgeirsson, aðjúnkt við HR, var leiðbeinandi þeirra í verkefninu.

Krefjandi en jafnframt gefandi

Haukur Steinn Logason segir að hópurinn sé ánægður með árangurinn, þegar komið sé svona langt í keppninni séu öll verkefnin orðin ótrúlega vel gerð. Það væri því ekki hægt að vera svekktur þó að leikurinn hafi ekki lent í einu af þremur efstu sætunum. Hann segir að veran úti í Ástralíu hafi einkennst af krefjandi prógrammi í kringum keppnina, en það hafi jafnframt verið gríðarlega gefandi reynsla að fá að hitta og kynnast öðrum keppendum og fá að kynna leikinn fyrir dómurunum og fá gagnrýni frá þeim, en þar væru á ferðinni stór nöfn í tölvuleikjaheiminum.

Haukur Steinn lýsir aðdraganda þess að hópurinn ákvað að taka þátt í keppninni svo: „Við kynntumst allir upp í HR í þriggja vikna verklegum kúrs og stóðum okkur með prýði þar. Svo eftir síðustu haustönn langaði okkur til þess að vinna aftur saman og fréttum af þessari keppni og því hvað hún væri mikið tækifæri. Við höfum allir haft mikinn áhuga á menntun fólks og við erum allir miklir tölvuleikjaspilarar þannig að þetta var mjög skemmtileg áskorun fyrir okkur.“

Leikurinn Robert's Quest snýst um íkornann Róbert og gerist í ekki of fjarlægri framtíð þar sem borgin Westview Falls er algjörlega háð óendurnýtanlegum orkugjöfum svo að stefnir í óefni. Spilendur stýra Róberti sem fyrir tilviljun lendir í því hlutverki að breyta orkugjöfum borgarinnar til umhverfisvænni kosta. Í leiðinni fá spilendur upplýsingar um endurnýjanlegu orkugjafana og læra því af spilun leiksins um þá. 

Haukur Steinn segir leikinn, sem er af gerð „platform“-leikja á borð við leikina um Maríó-bræður, hafa verið innblásinn af þeim tölvuleikjum sem þeir hafi sjálfir spilað í æsku. Hann segir að hópurinn sé fyrst núna að fara yfir framtíðarplön sín, en stefnt sé að því að gefa leikinn út fyrir almenning, en ekki sé búið að ákveða á hvaða stýrikerfi hann verður spilanlegur eða hvort hann verði aðgengilegur á netinu.

Facebook-síða Radiant Games

Kynningarmyndband fyrir leikinn

Heimasíða Imagine Cup

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík mbl.is/Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka