„Merkur dagur í sögu tjáningarfrelsis“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is

„Ég tel að þetta sé merkur dagur í sögu tjáningarfrelsis á Íslandi,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, en það studdi málarekstur Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur fyrir mannréttindadómstól Evrópu.

„Íslenskir dómstólar hafa umgengist tjáningarfrelsið á þann hátt að þeir hafa að mörgu leyti hindrað það. Íslendingar hafa ekki haft nægjanlegan skilning á gildi tjáningarfrelsisins og gildi þess að umræða í samfélaginu geti verið óheft. Þetta á ekki bara við um dómstólana því að þennan skilning hefur líka skort hjá Alþingi. Við sjáum það í fjölmiðlalögum og tilraunum til að setja þrengri skorður í upplýsingalögum,“ sagði Hjálmar.

Hjálmar sagði mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að tjáningarfrelsið  væri virt og að blaðamenn fengju að sinna störfum óhindrað. „Það er best fyrir alla, sérstaklega í litlum samfélögum. Við sjáum það eftir þetta hrun að óheft umræða skiptir gríðarlega miklu máli. Opin umræða er besta vörnin gegn spillingu og þess vegna ber að styrkja umræðuhefð í landinu.“

Blaðamannafélagið studdi málsókn Bjarkar og Erlu. Hjálmar sagði að það hefði kostað fjármuni og mikla vinnu að reka þetta mál fyrir dómstólnum. Hann sagði að lögmenn blaðamannanna hefðu staðið sig vel og ættu skilið þakkir.

Tvö önnur mál hjá dómstólnum

„Ég hafði sannfæringu fyrir því að sú niðurstaða sem nú er fengin væri hin rétta niðurstaða í málinu,“ sagði Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður, sem rak þessi mál fyrir mannréttindadómstólnum.

Gunnar hefur vísað tveimur öðrum málum til dómstólsins, en Erla er aðili að þeim báðum. Þau snerta fréttir sem Erla skrifaði um Byrgismálið og um svokallað skútumál, þar sem maður var dæmdur fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna. Gunnar sagði að dómstóllinn hefði boðið íslenska ríkinu að semja um niðurstöðu málsins, en það hefði hafnað því. Hann sagðist gera sér vonir um að ríkisvaldið endurskoðaði þá niðurstöðu í ljósi dómsins sem féll í dag. Gunnar sagði málin sambærileg. Í öðru væri tekist á um ummæli sem Erla hafði eftir viðmælenda og í hinu málinu var hún látin bera ábyrgð á fyrirsögn á forsíðu sem ritstjóri blaðsins samdi.

Alþingi er búið að breyta prentlögum, en Gunnar sagðist ekki vera sannfærður um að svona mál gætu ekki komið upp eftir gildistöku nýrra fjölmiðlalaga. „Vissulega kveða nýju fjölmiðlalögin á um það að sá sem beri ábyrgð á ummælum sé sá sem þau eru höfð eftir, en hins vegar eiga dómstólar eftir að túlka þessi lög. Það getur verið að það verði ágreiningur um það hvenær haft er orðrétt eftir og ekki. Í þessu Vikumáli [máli Bjarkar] voru ummælin ekki höfð orðrétt eftir, orð fyrir orð [þ.e. innan gæsalappa] og því taldi dómurinn að blaðamaðurinn bæri ábyrgð á þeim. Ég vil því ekki slá því föstu að það hafi orðið einhver grundvallarbreyting með nýjum fjölmiðlalögum.“

Gunnar sagðist vera þeirrar skoðunar að tilgangur prentlaga hefði aldrei verið sá að gera blaðamenn ábyrga fyrir ummælum. Lögin kvæðu á um að höfundur bæri ábyrgð á ummælum. Gunnar sagðist líta svo á að þessi höfundur væri sá sem viðhefði ummælin, en ekki sá sem skrifaði þau niður á blað.

Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður.
Gunnar Ingi Jóhannsson, lögmaður. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert