Um 30 manns vinna nú við að slökkva sinueldana sem loga á Snæfellsnesi. Slökkvistörf ganga ekki nógu vel að sögn manna á staðnum en þó hefur tekist að hefta útbreiðsluna að mestu leyti. Enn logar þó glatt í túnum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, hefur verið notuð við slökkvistörf en hún er nú í sinni síðustu ferð í kvöld en endsneytið mun vera að klárast í þyrlunni.
Eldurinn kviknaði í túnum við bæinn Rauðkollsstaði á suðaustanverðu Snæfellsnesi fyrr í kvöld.
„Þetta gengur ekki alveg nógu vel en við erum að reyna að hefta frekari útbreiðslu,“ sagði slökkviliðsmaður á vakt sem mbl.is náði tali af. Hann sagðist búast við því að þeir yrðu að störfum eitthvað fram á nótt.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur boðist til að aðstoða. Þess er þó ekki talin þörf. Hins vegar hefur Landhelgisgæslan staðið í ströngu við slökkvistörfin og beitt til þess þyrlunni TF-LÍF, sem fyrr segir.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni felst slökkvibúnaður þyrlunnar í slökkvifötu sem hengd er neðan í þyrluna, henni er svo dýft í vatn eða sjó og þannig fyllt. Fatan er síðan tæmd með því að rafknúinn loki í botni hennar er opnaður og vatnið gusast út. Hámarksburðargeta skjólunnar er um 2.100 lítrar en hægt er að minnka og auka vatnsmagnið í fjórum þrepum frá tæplega 1.500 lítrum upp í fyrrnefnda 2.100 lítra.