Verða að geta birt orðrétt ummæli

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Reuters

Mannréttindadómstóll Evrópu segir að þegar blaðamönnum sé refsað fyrir að birta orðrétt ummæli viðmælenda sinna hamli það möguleikum fjölmiðla til að taka þátt í umræðu um mál sem varði almenning miklu. Þetta kemur fram í dómi um mál blaðamannanna Bjarkar Eiðsdóttur og Erlu Hlynsdóttur.

Björk og Erla unnu báðar mál sín fyrir Mannréttindadómstól Evrópu gegn íslenska ríkinu. Dómstóllinn taldi að Ísland hefði brotið gegn 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem fjallað er um tjáningarfrelsið.

Í báðum þessum dómsmálum komst hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að ummæli sem var að finna í greinum sem Björk og Erla skrifuðu hefðu falið í sér meiðandi ummæli. Ummælin voru höfð beint eftir viðmælanda, en hæstiréttur dæmdi á grundvelli prentlaga frá árinu 1956 og komst að þeirri niðurstöðu að blaðamennirnir bæru ábyrgð á ummælunum.

Skrifuðu um starfsemi nektarstaða

Bæði málin varða starfsemi nektarstaða á Íslandi. Björk skrifaði þegar hún var blaðamaður á Vikunni um starfsemi skemmtistaðarins Goldfinger og hafði eftir fyrrverandi starfsmanni staðarins að þar væri stunduð vændisstarfsemi sem framkvæmdastjóri staðarins skipulagði. Erla skrifaði þegar hún var blaðamaður á DV um skemmtistaðinn Strawberries. Viðmælandi Erlu sagði að gestur á staðnum hefði ráðist á sig. Hann lét þau orð falla að sá orðrómur gengi að litháska mafían væri á staðnum. Bæði Erlu og Björk var í hæstarétti gert að greiða bætur vegna þessara ummæla.

Í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu er bent á að áður en greinarnar birtust hafi átt sér stað umræða um starfsemi nektarstaða á Íslandi og aðstæður kvenna sem þar störfuðu, en þær voru margar frá A-Evrópu. Dómstóllinn segir að í máli Bjarkar geti dómurinn ekki fallist á þau rök íslenska ríkisins að grein hennar hafi ekki verið nauðsynlegur hluti af opinberri umræðu um nektarklúbba. Björk hafi í greininni lagt fram rök sem styðja þær staðhæfingar sem þar séu að finna. Hún hafi einnig óskað eftir viðbrögðum eiganda staðarins við ásökunum um að þar væri stundað vændi og afstaða hans kæmi fram í greininni.

Varðandi mál Erlu segir dómurinn að ekki hafi verið lögð fram nægilega sterk rök fyrir því að ummælin í fréttinni um lithásku mafíuna beri að skilja þannig að þar sé stunduð skipulögð glæpastarfsemi. Erla ræddi bæði við þann sem bar fram ásakanirnar og eiganda staðarins.

„Dómstóllinn leggur áherslu á að í báðum þessum málum er verið að refsa blaðamönnum fyrir að birta orðrétt ummæli viðmælanda. Slíkt hamlar með alvarlegum hætti möguleika fjölmiðla til að taka þátt í umræðu sem varðar almenning miklu og ætti ekki gera nema sterk rök séu færð fyrir því. Dómstólinn telur að slíkum rökum hafi ekki verið til að dreifa í þessum tveimur málum.  Íslensk stjórnvöld hafa ekki lagt fram sannfærandi rök fyrir því að nauðsynlegt sé í lýðræðislegu samfélagi að hafa afskipti af réttindum stefnenda,“ segir í fréttatilkynningu frá dómnum.

Íslenska ríkinu var gert að greiða Björk 37.790 evrur, tæpar sex milljónir króna, og Erlu 21.500 evrur, 3,4 milljónir króna.

Björk Eiðsdóttir blaðamaður.
Björk Eiðsdóttir blaðamaður.
Erla Hlynsdóttir blaðamaður.
Erla Hlynsdóttir blaðamaður. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert