„Út frá öryggissjónarmiðum þá skýtur það skökku við að leitað sé í þaula á farþegum annars vegar og hins vegar komist menn yfir girðingu um borð í flugvél. Þetta er mótsagnarkennt,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, aðspurður út í atvik þar sem tveir menn náðu að klifra yfir girðingu og komast inn á salerni um borð í flugvél Icelandair sem var á leið til Kaupmannahafnar.
Að sögn Ögmundar er alveg ljóst að menn muni taka þessi öryggismál til gagngerrar endurskoðunar í ljósi þessa atburðar. Aðspurður hvort málið verði tekið upp innan ráðuneytisins segir Ögmundur: „Ég geri ráð fyrir því að hafa samband við Isavia og lögregluna á Suðurnesjum, sem hefur öryggismálin á sinni könnu, og fá nánari upplýsingar um málið. Síðan yrði það metið í kjölfarið hvort grípa þyrfti til einhverra sérstakra ráðstafana.“
Þá segir Ögmundur, aðspurður, að innanríkisráðuneytið hafi ekki fengið nein símtöl frá alþjóðlegum stofnunum á borð við t.d. Alþjóðlegu flugmálastofnunina. „Almennt tel ég að öryggismálum sé vel komið á Keflavíkurflugvelli. Þess vegna kemur það manni svo á óvart að þetta skuli gerast,“ segir hann.