Magnús Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, verður næsti bæjarstjóri í Garði. Gengið verður frá ráðningu Magnúsar á bæjarstjórnarfundi í hádeginu á morgun.
Alls bárust 30 umsóknir um starf bæjarstjóra sem var auglýst eftir að nýr meirihluti í Garði sagði upp ráðningarsamningi við Ásmund Friðriksson.
„Það verður tekið fyrir á morgun um hádegið,“ segir Davíð Ásgeirsson, fulltrúi L-listans í bæjarstjórn Garðs. Hann reiknar fastlega með því að ráðning Magnúsar verði samþykkt á fundinum.
Magnús vildi ekki tjá sig um fyrirhugaða ráðningu fyrr en eftir fundinn á morgun.
Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórninni höfðu ekki heyrt um fyrirhugaða ráðningu Magnúsar þegar mbl.is leitaði álits hjá þeim.