Ánægð með flýtimeðferð

Greiðsluþátttaka í MS-lyfinu Gilenya hefur verið samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands …
Greiðsluþátttaka í MS-lyfinu Gilenya hefur verið samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands en Landspítalinn óskaði eftir flýtimeðferð á afgreiðslu umsóknar um innleiðingu lyfsins hinn 28. júní sl. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Við getum ekki verið annað en ánægð með það hve vel var tekið í flýtimeðferðina þar sem beiðni var send inn 28. júní. Við höfðum fengið þær upplýsingar að þetta gæti tekið allt að þrjá mánuði,“ segir Berglind Guðmundsdóttir formaður MS félagsins.

Greiðsluþátttaka í MS-lyfinu Gilenya hefur verið samþykkt af Sjúkratryggingum Íslands en Landspítalinn óskaði eftir flýtimeðferð á afgreiðslu umsóknar um innleiðingu lyfsins hinn 28. júní sl.

Ákveðið hefur verið að Gilenya-meðferð verði veitt þeim MS-sjúklingum sem hafa nú þegar reynt MS-lyfið Tysabri og orðið að hætta notkun þess. Fyrst og fremst er um að ræða þá sem hafa mótefni gegn JC-veiru í blóði og eru í aukinni hættu á að fá PML-heilabólgu samfara áframhaldandi notkun lyfsins.

„Þessar fréttir eru mjög jákvæðar fyrir þá MS sjúklinga sem þurftu að hætta á Tysabri vegna mótefnis gegn JC veiru. Nokkrir einstaklingar eru búnir að vera lyfjalausir í nokkra mánuði og farnir að finna fyrir versnum. Það hefur verið mikið álag á þessu fólki bæði andlega og líkamlega“ segir Berglind.

Í byrjun munu 5-10 sjúklingar hefja meðferð á Gilenya, en áætlað er að fljótlega muni 20-25 bætast í hópinn. Sjúkratryggingar Íslands og Landspítalinn stefna í framhaldi að heildarendurskoðun og samræmingu klínískra leiðbeininga vegna MS-lyfja.

Gert er ráð fyrir að þeirri endurskoðun verði lokið um næstu áramót. Næsta endurskoðun er síðan áætluð að þremur árum liðnum, nema nýjar upplýsingar komi fram sem gera nauðsynlegt að flýta henni.

Berglind Guðmundsdóttir
Berglind Guðmundsdóttir mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka