Frjókorn í fullum krafti

Fíflar blómstra á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur.
Fíflar blómstra á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Mesti frjó­korna­tími lands­ins er að ganga í garð. Frjó­töl­ur eru háar á þurrviðris­dög­um í Reykja­vík og á Ak­ur­eyri og gras­frjó­um fjölg­ar í mæl­ing­um stofn­un­ar­inn­ar í Urriðaholti. Nú eru síðustu for­vöð að slá vallar­foxgras áður en það nær að dreifa frjó­korn­um.

Mar­grét Halls­dótt­ir, um­sjón­ar­maður frjó­mæl­inga hjá Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands, seg­ir að al­geng­ast sé að gras­frjó valdi frjó­korna­of­næmi, en einnig þekk­ist að birki­fræ séu of­næm­is­vald­ar. Mar­grét seg­ir að fjöldi gras­frjóa í ár sé minni en árið 2010 en svipaður og árið 2008. Þessi þrjú ár, ásamt ár­inu 2003, eigi það sam­merkt að fjöldi gras­frjóa í mæl­ing­um hafi farið yfir 10 á rúm­metra þegar seinni part­inn í júní, en al­mennt séð er miðað við að of­næm­is verði einkum vart þegar farið er yfir þann þrösk­uld, og þá auk­ist eft­ir­spurn eft­ir of­næm­is­lyfj­um.

Aðspurð um umræðu und­an­far­inna daga um grasslátt í Reykja­vík­ur­borg seg­ir Mar­grét: „Ef það er rétt að það er minna slegið þá hef­ur það áreiðan­lega áhrif, því það er mjög mikið atriði að tún séu sleg­in áður en grasið kemst á það þroska­stig að blóm­in opn­ast og frjó­hnapp­arn­ir koma út, því að þá tek­ur vind­ur­inn við og fer að dreifa frjó­korn­un­um.“

Hins veg­ar verði líka að hafa í huga að oft­ast er fleiri en ein gras­teg­und á opn­um svæðum og í görðum borg­ar­inn­ar, og þær blómg­ast á mis­mun­andi tím­um: „Þannig var háliðagrasið sem við þekkj­um flest að blómg­ast og dreifa frjó­korn­um um miðjan júní, en núna sé ég að vallar­foxgrasið er al­veg að fara að springa út, og á þeim stöðum er mjög mik­il­vægt að fara að slá núna, áður en það ger­ist,“ seg­ir Mar­grét en frjó­korn­in frá vallar­foxgras­inu eru helsti of­næm­is­vak­inn hjá þeim sem eru með frjó­korna­of­næmi.

Grasið blómstr­ar fyrr í veður­blíðunni

Mar­grét seg­ir að frjó­korn­in séu fyrr á ferðinni en í venju­legu ár­ferði. Góða veðrið að und­an­förnu hafi haft þau áhrif að grasið sé að blómstra um tíu dög­um fyrr en venj­an er. Mar­grét seg­ir að hún hafi sagt um­hverf­is­nefnd Reykja­vík­ur­borg­ar í vor að það þyrfti að fylgj­ast vel með grassprettu í borg­inni: „Ég sagði á þeim fundi, sem var hald­inn að for­göngu Ast­ma -og of­næm­is­fé­lags­ins, að það þyrfti fólk með þekk­ingu til þess að fylgj­ast með plönt­un­um á grænu svæðunum og sjá hvenær grös­in eru skriðin, því þá þarf að taka fram sláttu­vél­arn­ar og fara að slá. Menn hafa þá allt að tvær vik­ur til þess að bregðast við áður en frjó­korn­in fara að dreifa sér.“

Mar­grét seg­ir að of­næm­is­sjúk­ling­ar geti gert ým­is­legt til þess að hjálpa sér, t.d. eigi þeir sem hlaupi úti að hlaupa frek­ar meðfram sjón­um, þar sem loftið sé minna mettað af frjó­korn­um. Þá er holl­ráð að hengja ekki þvott til þerr­is ut­an­dyra á meðan mesti frjó­korna­tím­inn sé.

Hefja lyfjameðferð strax og fyrstu ein­kenna verður vart

Davíð Gísla­son lækn­ir seg­ir að það sé einkum tvennt sem of­næm­is­sjúk­ling­ar geti gert á þess­um tíma. „Fyrra atriðið er að forðast frjó­korn­in, að vera ekki mikið í óslegnu grasi. Ég tala nú ekki um ef að fólk fer í úti­legu, að tjalda ekki þar sem mikið gras er, held­ur frek­ar leita að stað þar sem grasið er slegið, eða þá jafn­vel tjalda út við sjó­inn, en það er þó sísti kost­ur­inn fyr­ir flesta í úti­leg­um.“

Hitt úrræðið er lyfjameðferð. Davíð seg­ir að all­ir sem þjá­ist af of­næmi ættu að vera á lyfjameðferð núna: „Reynd­ar ætti fólk að byrja strax taka inn of­næm­is­lyf þegar ein­kenni gera vart við sig, reynd­ar var það nokkuð snemma í júní­mánuði í ár. Oft dug­ir það síðan ekki til, það þarf þá líka bólgu­eyðandi úða í nefið, því ein­kenn­in eru mest í nefi og aug­um. Það þarf hins veg­ar lyf­seðil fyr­ir því. Fólk ætti því að sýna fyr­ir­hyggju ef það veit af því að það er með frjó­korna­of­næmi og leita til lækn­is áður en of­næmið hefst. Svo geta menn einnig fengið augndropa án lyf­seðils fyr­ir aug­un, en það er það eina sem menn geta þá tekið eft­ir þörf­um. Með hin lyf­in er orðið of seint að byrja að meðhöndla sig þegar maður er orðinn slæm­ur, menn þurfa að taka þau að staðaldri yfir mesta gróður­tím­ann.“

Davíð seg­ir að tíðni frjó­korna­of­næm­is hafi verið að aukast síðastliðna ára­tugi á Íslandi. Af ungu fólki þjá­ist ca. 20% af frjó­korna­of­næmi nú, og hef­ur sá fjöldi tvö­fald­ast síðan fyr­ir tutt­ugu árum. Al­mennt séð sé tíðni of­næm­is að aukast á Vest­ur­lönd­um og þró­un­in hér sé í sam­ræmi við það. Marg­ar ástæður séu þar að baki, t.d. skipti aðstæður í upp­eldi máli.

Davíð vill beina þeim til­mæl­um til fólks með gróðurof­næmi að ef það hyggi á ferðalög til út­landa kynni það sér aðstæður í komuland­inu svo að það eyðileggi ekki fríið fyr­ir sér. Frjó­korn geri fyrr vart við sig al­mennt séð í út­lönd­um en á Íslandi. Því sé betra fyr­ir fólk að fara frek­ar t.d. um miðjan júlí til sól­ar­landa, því þannig losni það við versta tím­ann hér á landi, sem er þá lík­lega geng­inn um garð þar.

Frjó­korna­mæl­ing­ar birt­ast dag­lega á vef Nátt­úru­fræðistofn­un­ar.

Frjókorn í lofti valda mörgum ofnæmissjúklingum vandræðum á vorin.
Frjó­korn í lofti valda mörg­um of­næm­is­sjúk­ling­um vand­ræðum á vor­in. mbl.is/Á​rni Torfa­son
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert