Ómar hætt kominn við Skeiðavegamót

Ómar Ragnarsson lýsir því er hann var nærri lendur í …
Ómar Ragnarsson lýsir því er hann var nærri lendur í alvarlegu umferðarslysi um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjölmiðlamaðurinn Ómar Ragnarsson lýsir umferðaróhappi á bloggi sínu sem varð við gatnamót Skeiðavegar og Suðurlandsvegar, þar sem vélhjólamaður hafi neyðst til þess að snögghemla, með þeim afleiðingum að maður og hjól þeyttust áfram um 55 metra í loftköstum.

Ómar lýsir tildrögum slyssins svo að hann hafi verið á biðskyldunni að líta til beggja hliða og ekki séð neina umferð. Svo þegar bíllinn hafi sigið inn fyrir biðskyldumerkið hafi skyndilega dökkt vélhjól birst á mikilli ferð. Ökumaður vélhjólsins hafi snarhemlað með skelfilegum afleiðingum: „Um leið og vélhjólamaðurinn neglir niður, þeytist hjólið upp að aftan og maður og hjól fljúga hátt í loft upp og þeytast áfram í loftköstum alls 55 metra. Malbikið nýtt og þurrt, dekkin sléttir slikkarar. Véljólamaðurinn liggur eftir loftköstin án þess að sjáist með honumn nokkurt lífsmark, þar sem hann stöðvast.“

 Þeir sem komu að óttuðust að ökumaðurinn væri látinn, enda þurfi ekki mikið til í slíkum aðstæðum til þess að háls- eða hryggbrot hljótist af. Fyrir mikla mildi hafi maðurinn hins vegar sloppið með brotið handarbein við litla fingur á vinstri hendi. „Augnablikin, þegar stumrað er yfir manninum eru eins og heil eilífð angistar þeirra sem þarna eru yfir honum,“ skrifar Ómar.

Ómar segir svo að þegar gatnamótin séu skoðuð grannt komi í ljós að umferðarskilti sem á stendur „Flúðir“ byrgi mönnum sýn við þessi gatnamót, með þeim afleiðingum að hvorki bílstjóri né vélhjólamaður gátu orðið hvor annars varir: „Bílstjórinn sá ekki vélhjólamanninn einmitt á því augnabliki sem hann hefði þurft þess mest með. Bíllinn var svo lítill að séð frá vélhjólamanninum hvarf hann alveg á bak við skiltið á þessu sama augnabliki.“

Ómar bendir á í þessu samhengi að stöðvunarskylda sé við áþekk gatnamót á Suðurlandsvegi, sem sum hver hafi ekki komið fyrr en eftir banaslys, og spyr hvers vegna hið sama gildi ekki um Skeiðavegamót. Hann segir að það fari hrollur um sig þegar hann hugsi til þess að hefði hann ekið aðeins hraðar inn á vegamótin hefði hugsanlega orðið tvöfalt banaslys þarna þegar vélhjólið hefði farið á 90 kílómetra hraða inn í bílstjórasætið.

„Það fer hrollur um bílstjóra litla bílsins við tilhugsunina um það að hefði hann ekið aðeins hraðar inn á vegamótin hefði hugsanlega orðið tvöfalt banaslys þarna ef vélhjólið og vélhjólamaðurinn hefðu þeyst inn í bílstjórasætið á 90 kílómetra hraða.

Þá hefði þessi pistill ekki verið skrifaður. Bílstjórinn á mjósta bílnum sem er í umferð á landinu og var þarna á ferð, var ég,“ skrifar Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert