Ógnanir sjónlistastjóra Akureyrar, Hannesar Sigurðssonar, á björtu kvöldi í Gilinu á Akureyri hafa orðið til þess að formaður Myndlistarfélagsins útilokar ekki að leita til lögreglu.
Kvörtunarbréf berast Akureyrarbæ vegna annarrar framkomu sjónlistastjóra sem sjálfur segist sviptur tjáningarfrelsi og ekki geta varið sig. Bærinn er sakaður um vanhæfni til að leysa vandann, segir í frétt í vikublaðinu Akureyri sem kom út í dag en þar er ítarlega fjallað um málið.
Þar kemur fram að mikil ólga sé meðal hóps myndlistarmanna vegna samstarfsörðugleika við Hannes Sigurðsson sjónlistastjóra og meintrar vangetu bæjarkerfisins til að taka á vandanum.
Steininn hafi tekið úr í síðustu viku þegar sjónlistastjóri átti orðastað við formann Myndlistarfélagsins á Akureyri, Guðrúnu Hörpu Örvarsdóttur, sem segist ekki vita hvernig hún eigi að túlka ummælin.
Lýsti því hvernig hann myndi myrða
„Orðaskipti okkar Hannesar voru bara með nokkuð góðu móti þetta kvöldið þar sem hann náði tali af mér þegar ég var að vökva þökurnar sem nýbúið var að leggja í Listagilinu. Við vorum að ræða okkar á milli hversu gaman það væri að hafa Gilið svona líflegt og það væri nauðsynlegt að standa saman, sem við höfum gert í gegnum þessar breytingar.
Svo veit ég ekki fyrr en hann er farin að tala um að ég sé stödd austur í heiði og hann standi þarna með riffil á grasblettinum í Gilinu og sé að fylgjast með hverri hreyfingu minni og andardrætti með sjónauka sem er á rifflinum án þess að ég hafi hugmynd um það. Svo lýsir hann því mjög vel fyrir mér hvernig hann skýtur mig með „silver bullet“ beint á milli augnanna.
Leikur eftir hljóði byssukúlunnar þegar hún nálgast höfuðið á mér og hvernig ég hníg niður til jarðar og hvernig höggbylgjan af skotinu færist yfir bæinn, þrátt fyrir að vera með mjög góðan hljóðdeyfi á byssunni.
Þessa myndlíkingu setti hann upp þegar hann vildi meina að við gætum komið bæjarbúum á óvart með því að dansa „Sáttarvals“ um götur Akureyrar og allir yrðu agndofa af undrun, enginn ætti von á því, líkt og ég, þar sem ég hafði ekki hugmynd um að hann væri að fylgjast með mér í skotfæri,“ segir Guðrún Harpa, í samtali við Akureyri.
Viðbrögð hennar voru að gera málið opinbert. „Já ég hugsaði með mér að nauðsynlegt væri að tilkynna þetta og fór á Akureyrarstofu til að tala við Þórgný Dýrfjörð yfirmann Hannesar, sem var ekki við og mér var sagt að hann yrði lítið sem ekkert við út vikuna. Ég mun í vikunni senda Þórgný formlega umkvörtun. Ætli þessu hefði ekki bara verið sópað undir mottuna líkt og öðrum málum sem koma að Sjónlistamiðstöðinni hvort eð er. Eins benti fólk mér á að tilkynna þetta til lögreglu, sem ég hef reyndar ekki gert ennþá.“