Afar þurrt hefur verið á landinu í sumar og víða hafa tún brunnið í þurrviðrinu. Anna Margrét Jónsdóttir, bóndi og héraðsráðunautur hjá Búnaðarsambandi Húnaþings og Stranda, segir að bændur hafi áhyggjur af ástandinu.
„Þetta er töluvert mikið tjón fyrir menn því áburðurinn er orðinn svo ofboðslega dýr, og svo þegar menn fá sáralítið af túnunum þá eru þessi hey sem menn fá orðin rosalega dýr,“ segir Anna um stöðuna í Húnavatnssýslunum.
Þá segir hún að veðurfarið hafi verið sérkennilegt. „Svona hefur þetta verið sjö ár í röð - rosalegir þurrkar.“
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er ekki mikillar úrkomu að vænta á næstunni.
Anna segir að staðan sé tvískipt. Ástandið sé mjög slæmt hjá bændum sem eru með harðlend tún. „Það er rosalega lítið á túnunum og mikið brunnið. Það er þó nokkuð víða,“ segir Anna. Aðspurð segir hún að staðan sé einna verst í Hrútafirði.
Staðan er hins vegar mun betri hvað varðar framræstar mýrar. Þar sé spretta góð og sumstaðar jafnvel betri en í meðalári vegna hlýinda. „En það vantar vætuna á þessi harðari tún,“ segir Anna.
Aðspurð segir hún að vandræðaástand geti skapast þar sem staðan hafi verið svipuð í fyrra og margir hafi ekki átt fyrningar í vor vegna slæmrar uppskeru á síðasta ári.
Þó það sé ljóst þetta hafi áhrif á heyskap þá tekur Anna fram að á þessari stundu sé erfitt að segja til um lokaniðurstöðuna.
Sumir bændur hafa brugðið á það ráð að fjárfesta í vökvunarbúnaði til að bregðast við ástandinu. Anna segir að það hjálpi sumum en ljóst sé að allir geti ekki nýtt sér slíkan búnað hafi menn ekki aðgang að vatni. Hún þekkir dæmi þess að á einum bæ hafi bæjarlækurinn einfaldlega þornað upp í hlýindunum og þurrviðrinu og þar af leiðandi hafi menn ekki haft erindi sem erfiði. Að auki fylgir ákveðinn kostnaður og vinna því að dæla vatni í túnin.
Anna, sem er með búskap á bænum Sölvabakka við Húnaflóa, segir að það verði ekki mikill heyskapur hjá sér þetta sumarið. „En ég fyrndi svolítið í vor þannig að ég á svosem von á að þetta bjargist. En ef þetta verður svona mjög mörg ár í röð þá verður maður að gera aðrar ráðstafanir.
„Það getur vel verið að menn þurfi að fara að ræsa fram meira og rækta tún á nýjum stöðum ef þetta veðurfar er komið til að vera,“ segir hún að lokum.
Trausti Jónsson veðurfræðingur skrifar um þurrkinn á bloggsíðu sína. Þar segir hann að veðrið haldi áfram að liggja í svipuðu fari. Hægviðri neðra en andi linnulítið af norðri efra.
„Þessu fylgir þurrkur um mikinn hluta landsins og fyrstu 11 dagana í júlí er hann litlu minni fyrir austan heldur en fyrir vestan. Ekki hafa nema 1,7 mm mælst á Dalatanga það sem af er mánuðinum sem er óvenjulegt og enn óvenjulegri eru 0,8 mm á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Í Reykjavík hafa þó mælst 12 mm, 5,5 mm í Stykkishólmi og 3,6 mm á Akureyri.“
Hvað þurrkinn varðar, þá segir hann að samkvæmt sínum útreikningum séu síðustu fimm ár afbrigðileg hvað varðar þurrk.