Eins og þruma úr heiðskíru lofti

Það er líf ög fjör hjá leikskólabörnum. Mynd úr safni
Það er líf ög fjör hjá leikskólabörnum. Mynd úr safni mbl.is/Sigurgeir

Reykjavíkurborg er byrjuð að innrita börn fædd í janúar 2011 á leikskóla borgarinnar og eru flest, ef ekki öll, börn fædd árið 2010 komin með pláss. Formaður Félags dagforeldra í Reykjavík segir að ákvörðun um að taka börn fædd 2011 inn á leikskóla hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Að sögn Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar, er mjög gott ástand í innritun barna inn á leikskóla borgarinnar og í sumar hafi komið í ljós að hægt yrði að byrja að innrita börn fædd í janúar á síðasta ári inn í leikskóla borgarinnar í haust.

Hins vegar sé ljóst að flest börn fædd 2011 verði, líkt og í fyrra, innrituð í leikskóla haustið 2013.

Orðin langþreytt á þessum vinnubrögðum

Sigrún Edda Lövdal, formaður Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík, segir að dagforeldrar séu orðnir langþreyttir á vinnubrögðum borgarinnar og það sé óþolandi að frétta af því að byrjað sé að innrita börn fædd í janúar 2011 þegar sumarfrí séu að hefjast hjá dagforeldrum en áður hafi Eva Einarsdóttir, formaður leikskólaráðs, lýst því yfir að börn fædd árið 2011 yrðu ekki innrituð í ár.

Að sögn Sigrúnar tóku dagforeldrar orð Evu trúanleg og vísuðu frá börnum og eyddu biðlistum þar sem flestir þeirra voru með hvert pláss fullskipað. Síðan kom tilkynning síðdegis þann 29. júní, sem var í flestum tilvikum síðasti vinnudagur dagforeldra fyrir sumarfrí, um að byrjað væri að innrita börn fædd í janúar 2011.

„Þetta kom sér afar illa fyrir dagforeldra,“ segir Sigrún því dagforeldrar standi frammi fyrir því að foreldrar þurfa að ganga frá uppsögn hjá dagforeldrum fyrir 15. júlí og því verði dagforeldrar fyrir ónæði frá foreldrum í sumarfríi. Hún segir að það sé skiljanlegt að foreldrar vilji ganga frá sínum málum en þetta geti komið dagforeldrum illa auk þess sem þeir verða fyrir tekjumissi.

Hún segir að dagforeldrar séu ósáttir og langþreyttir á þessum vinnubrögðum Reykjavíkurborgar.  Ekkert samband hafi verið haft við félagið áður en þetta er tilkynnt og flestir þeir dagforeldrar sem Sigrún hefur heyrt í eru að missa eitt til tvö börn í haust. „Þessi vinnubrögð eru ólíðandi. Við erum búin að funda með Reykjavíkurborg og biðja um að við verðum látin vita þegar slíkar breytingar standa fyrir dyrum en það hefur ekki tekist að fá þau til þess enn,“ segir Sigrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert