Fjármál Reykjavíkur skoðuð nánar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Eggert Jóhannesson

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent Reykjavíkurborg bréf þar sem segir að fjármál sveitarfélagsins þarfnist nánari skoðunar. Svara þarf nefndinni og senda gögn svo hægt sé að úrskurða hvort Reykjavík uppfylli ákvæði sveitarstjórnalaga. Málið var til umræðu í borgarráði í gær.

Í bréfinu segir að eftirlitsnefndin hafi yfirfarið ársreikning sveitarfélagsins fyrir rekstrarárið 2011 ásamt fjárhagsáætlun fyrir árin 2012 og 2013. „Með tilvísun til 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 502/2012 er það mat nefndarinnar að fjármál sveitarfélagsins þarfnist frekari skoðunar.“

Niðurstaða nefndarinnar er tvíþætt. Annars vegar varðar hún jafnvægisregluna, en samanlögð heildargjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum mega á hverju þriggja ára tímabili ekki vera hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. „Eftirlitsnefndin hefur yfirfarið fjárhagsupplýsingar sveitarfélagsins og ekki verður annað séð en samanlögð rekstrarniðurstaða fyrir ofangreind þrjú ár sé neikvæð.“

Hins vegar hvað varðar skuldaregluna, en heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum mega ekki vera hærri en 150% af reglulegum tekjum. „Með hliðsjón af ársreikningi 2011 er niðurstaða eftirlitsnefndarinnar að skuldahlutfall sveitarfélagsins sé 292%.“

Óskað eftir yfirliti um reikningsskil

Þá segir að til þess að hægt sé að úrskurða endanlega um hvort sveitarfélagið uppfylli ákvæði 64. gr. sveitarstjórnarlaga óski nefndin eftir yfirliti um reikningsskil samstæðu þar sem reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja sem færð eru í B-hluta reikningsskila sveitarfélagsins eru undanskilin.

Yfirlitið skal fela í sér rekstrarreikning, efnahagsreikning og sjóðstreymi samstæðunnar án veitu- og orkufyrirtækja. Senda skal bæði yfirlit yfir rekstrarárið 2011 en einnig yfirlit vegna fjárhagsáætlana árin 2012 og 2013.

Í bréfi eftirlitsnefndarinnar er farið fram á að svarað verði fyrir 16. júlí nk. Hins vegar var upplýst um það á fundi borgarráðs í gær að sótt hefði verið um skilafrest og hann hefði fengist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert