Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir það mikið fagnaðarefni að atvinnuleysi mælist ekki meira en 4,8% í júní en það er hið minnsta frá því haustið 2008. Þetta er jafnframt um 2 prósentustigum minna atvinnuleysi en á sama tíma í fyrra.
Fyrir hvert prósentustig sem úr atvinnuleysi dregur minnka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 3 milljarða króna á ársgrundvelli eða sem svarar 250 milljónum króna á mánuði. Á móti koma útgjöld vegna vinnumarkaðsúrræða sem stjórnvöld gripu til vegna fjármálakreppunnar.
Fram kemur í gögnum Vinnumálastofnunar að í júní síðastliðnum hafi 1.551 manns notið vinnumarkaðsúrræða, þar af 1.384 í gegnum átakið Vinnandi vegur. Um 170 til viðbótar nutu annarra úrræða sem greidd eru af Atvinnuleysistryggingarsjóði, að því er segir á vef Stjórnarráðs Íslands.
.„Þetta er ákaflega mikið fagnaðarefni og bætir enn þá jákvæðu mynd sem hvarvetna blasir við í efnahags og atvinnumálum. Þetta sýnir mikinn kraft í atvinnulífinu og að við erum á réttri leið - lífskjör fara batnandi og atvinnulífið er á uppleið,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
„Aðgerðir ríkisvaldsins í atvinnumálum og vinnumarkaðsaðgerðum eru að skila sér, atvinnuvegafjárfesting að taka við sér enda er hér mun meiri hagvöxtur en víðast hvar í löndum sem við berum okkur saman við. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að atvinnuleysi hefur farið niður um nær tvö prósentustig frá sama tíma í fyrra. Ég er mjög ánægð með að sjá hvað atvinnuleysið á Suðurnesjum, sem verið hefur hvað mest, minnkar hratt. Við erum komin langleiðina með að ná þeim markmiðum sem sett voru í stöðugleikasáttmálanum 2009 bæði að því er varðar atvinnuleysi og fjárfestingar,“ segir Jóhanna ennfremur á vef stjórnarráðsins.