Kjaranefnd Félags eldri borgara í Reykjavík krefst þess að kjaraskerðing sú sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir frá 1. júlí 2009, verði afturkölluð þegar í stað. Stjórnvöld tilkynntu að umrædd kjaraskerðing væri tímabundin (til 3ja ára) vegna ríkjandi efnahagsástands.
„Þrjú ár eru nú liðin frá því þessi kjaraskerðing tók gildi og þokkalegur hagvöxtur bæði í ár og sl. ár. Það er því komið að því að stjórnvöld efni fyrirheit sitt um afturköllun umræddrar kjaraskerðingar. Lífeyrisþegar, sem voru sviptir grunnlífeyri 1. júlí 2009 eiga að fá hann á ný að öðru óbreyttu. 110 þús. kr. frítekjumark vegna atvinnutekna á að taka gildi á ný og skerðingarhlutfall tekjutryggingar á að lækka á ný úr 45% í 38,35%. Það er búið að afturkalla kjaraskerðingu ráðherra, þingmanna og embættismanna en ekki kjaraskerðingu lífeyrisþega. Röðin er því sannarlega komin að lífeyrisþegum,“ segir í ályktun kjaranefndarinnar.
Kjaranefnd FEB bendir jafnframt á að þrátt fyrir fyrri fyrirheit stjórnvalda um að lífeyrir aldraðra ætti ávallt að hækka til jafns við kauphækkanir (eða verðhækkanir) drógust aldraðir verulega aftur úr í launaþróuninni á krepputímanum. Á árunum 2009 og 2010 hækkaði kaup láglaunafólks um 16% en aldraðir fengu á þeim árum enga hækkun lífeyris. „Launþegar hafa síðan fengið meiri hækkanir en eldri borgarar. Til þess að jafna metin þarf lífeyrir aldraðra að hækka um a.m.k. 20%. Kjaranefnd FEB krefst þess að sú hækkun taki gildi eigi síðar en um næstu áramót,“ segir í ályktuninni.